Viðburðir í Listasafni Árnesinga á sunnudaginn.

skrifað 08. apr 2011

Íslendingar og Pólverjar, íslenska sauðkindin, álfar og huldufólk, Chopin, Jón Leifs og ungir hljóðfæraleikarar.

Sunnudaginn 10. apríl
Sýningarspjall kl. 15
og tónleikar kl. 17

Á sýningunni IS(not) má sjá afrakstur úr ferðalögum fimm margverðlaunaðra pólskra ljósmyndara og fimm íslenskra rithöfunda sem ferðuðust í pörum um Ísland á síðasta ári. Rithöfundarnir Kristín Heiða Kristinsdóttir og Sindri Freysson munu ræða við gesti næstkomandi sunnudag kl. 15 um þetta samstarfsverkefni. Kristín Heiða fór með Jan Brykczyński í
Árneshrepp á Ströndum þar sem hann hafði mikinn áhuga á íslensku sauðkindinni og íslensku bændasamfélagi, en þar búa 38 manns allt árið og um 2.700 kindur. Ferðafélagi Sindra var Adam Pańczuk en hann var einkum forvitinn að vita meira um álfa og huldufólk og samband fólks við það.

Klukkan 17 sama dag mun m.a. pólsk og íslensk tónlist hljóma frá sex kammersveitum Kammerklúbbsins. Hann er vettvangur ungra íslenskra tónlistarnemenda á aldrinum 8-18 ára, sem leika á fiðlu, víólu, selló og píanó til þess að fá þjálfun í því að spila tónlist með öðrum og afla sér nýrrar tónlistarreynslu sem byggist á faglegum metnaði og vináttu. Kammerklúbburinn er eini starfandi kammerklúbbur á Íslandi. Hann var stofnaður í ágúst 2009 að frumkvæði Ewu Tosik-Warszawiak, listræns stjórnanda klúbbsins og foreldra nokkurra af fyrstu þátttakendunum. Enginn aðgangseyrir er að tónleikunum en frjáls framlög vel þegin til styrktar starfseminni.