Sýningin IS(not) og Úr kössum og koffortum í Listasafni Árnesinga

skrifað 11. mar 2011
IS(not) │ (EI)land
og
Úr kössum og koffortum

** *|*

Danuta Szostak ræðismaður Póllands á Íslandi mun opna sýninguna IS(not) í Listasafni Árnesinga laugardaginn 12. mars kl. 14 og boðið verður upp á pólskt- íslenskt tónlistaratriði. Hluti sýningarinnar verður síðan opnaður í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi í Reykjavík kl. 16 sama dag.

Á sýningunni IS(not) má sjá afrakstur úr ferðalögum fimm margverðlaunaðra pólskra ljósmyndara og fimm íslenskra rithöfunda sem ferðuðust í pörum um Ísland á síðasta ári. Að skilja annan aðila er að öðlast aukinn skilning á sjálfum sér. Til að skilja þetta land, þarf að kljást við fjölmiðlaklisjur - um þjóð sem var efnuð en hefur nýlega stungist á kaf í efnahagskreppu eða um land stórkostlegra eldfjalla sem hafa lamað flugsamgöngur um hálfa Evrópu. Upphafspunktur ljósmyndaranna var að takast á við þessar klisjur og fanga innsta eðli Íslands, hið mannlega eðli. Hina heiðnu siði eylandsins, goðsagnir, þjóðsögur og frásagnir sem miðlað hefur verið frá kynslóð til kynslóðar og eru enn í fullu gildi meðal þeirra. Sýningin er unnin af Sputnik photos með styrk frá Menningarsjóði Póllands og EES / EFTA ríkjanna, Íslands, Liechtenstein og Noregs. Adam Pańczuk ljósmyndari og Sindri Freysson rithöfundur könnuðu hulduheima Íslands, Michał Łuczak og Hermann Stefánsson könnuðu einangrunina, Jan Brykczyński og Kristín Heiða Kristinsdóttir skoðuðu sambúðina við sauðkindina, Agnieszka Rayss og Sigurbjörg Þrastardóttir tóku vatnið fyrir og Rafał Milach og Huldar Breiðfjörð skoðuðu allt sem þeir komust yfir. Andrzej Kramarz er sýningarstjóri og Marzena Michalek er verkefnisstjóri sýningarinnar. Sýningin er tvískipt og þarf því að heimsækja báða sýningarstaði til þess að sjá alla sýninguna.

Sunnudaginn 13. mars kl. 16 verður boðið upp á sýningarspjall með þáttöku Rafał Milach, Huldar Breiðfjörð, Agnieszku Rayss, Sigurbjörgu Þrastardóttur, Jan Brykczyński og Kristínu Heiðu Kristinsdóttur.

Á sama tíma verður einnig opnuð ljósmyndasýningin Úr kössum og koffortum, sem er samstarfsverkefni með Héraðsskjalasafni Árnesinga. Þar getur að líta myndir úr ýmsum skjala- og myndasöfnum sem Héraðsskjalasafninu hafa borist gegnum tíðina. Myndirnar, sem spanna 50 ára tímabil frá 1930 til 1980, eiga það sammerkt að vera teknar í Hveragerði og nágrenni, á Kolviðarhóli og Hveradölum, úr Þorlákshöfn og Ölfusi.

Inga Jónsdóttir, safnstjóri Listasafns Árnesinga Austurmörk 21, 810 Hveragerði sími: 483 1727 gsm: 895 1369 [www.listasafnarnesinga.is][1] [1]: http://www.listasafnarnesinga.is/