Listamannsspjall sunnudaginn 13. febrúar kl. 15 með Ólöfu Nordal

skrifað 10. feb 2011

Næst komandi sunnudag, 13. febrúar kl. 15 mun Ólöf Nordal ræða við gesti um verk sín á sýningunni Þjóðleg fagurfræði sem nú stendur í Listasafni Árnesinga. Hún er m.a. höfundur verksins Valþjófsstaðahurð (sjá mynd). Auk þess að skoða verk hennar gefst tækifæri til þess að ræða við hana almennt um listsköpun hennar, aðferðafræði og viðfangsefni.


Ólöf stundaði nám hér og í Bandaríkjunum. Hún vinnur oft með ýmis þjóðleg minni og setur þau í samhengi samtímans. Frá námslokum hefur hún verið mjög virk í sinni listsköpun og hlotið ýmsar viðurklenningar svo sem úr Listasjóði Dungals, Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur og Höggmyndasjóði Richard Serra. Hún er höfundur nokkurra listaverka og minnisvarða á opinberum vettvangi ýmist utan- eða innandyra. Innandyra má nefna verk eins og Vitid ér enn - eda hvat? í Alþingishúsinu og Fugla himinsin,s altarisverk Ísafjarðarkirkju en utandyra má nefna Geirfuglinn í Skerjafirði og Bríetarbrekku, sem er minnisvarði um Bríeti Bjarnadóttur svo dæmi séu tekin.

Höfundar annarra verka á sýningunni eru Ásgrímur Jónsson, Gísli Jónsson, Jóhannes Kjarval, Halldór Einarsson, Kristinn Pétursson, Bjarni H. Þórarinsson, Birgir Andrésson, Guðjón Ketilsson, Hulda Hákon, Daníel Þ Magnússon og Aðalheiður S. Eysteinsdóttir. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðunni www.listasafnarnesinga.is

Aðgangur er ókeypis. Í safninu er notaleg kaffistofa með leskró þar sem hægt er að skoða ýmis rit um myndlist. Einnig er þar leikkró með skapandi kubbum fyrir börn á ýmsum aldri. Safnið er opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 12-18.

Nánari upplýsingar:
Inga Jónsdóttir, safnstjóri, sími 895 1369, www.listasafnarnesinga.is