Áríðandi upplýsingar vegna hitaveitu !

skrifað 21. jan 2011

Eftirfarandi er tilkynning frá Orkuveitu Reykjavíkur:** *|*Orkuveita Reykjavíkur hefur gefið Hvergerðingum lengri frest til að gera úrbætur á lagnakerfum sínum og því mun íblöndun litarefnis í tvöfalda dreifikerfi hitaveitunnar ekki hefjast fyrr en 28. febrúar 2011. AH/25012011 Undir lok mánaðarins, 28. janúar nánar tiltekið, verður blandað bláu litarefni í heita vatnið þar sem tvöfalt kerfi hitaveitu er í Hveragerði. Öllum viðskiptavinum, sem málið varðar, hefur verið sent bréf þessa efnis, en þar sem kerfin eru með eðlilegum hætti á engin litur að komast í snertingu við fólk. Tilgangurinn er að hafa uppi á leka í kerfinu. Hér að neðan er nánari grein gerð fyrir aðgerðinni og kort af því svæði, þar sem tvöfalda kerfið er. Orkuveita Reykjavíkur (OR) rekur hitaveitu í Hveragerði þar sem einn hluti kerfisins nýtir gufurennsli úr jarðhitaholum til að hita upp vatn í lokaðri hringrás í dreifikerfi. Vatn úr dreifikerfinu er notað beint á ofna í húsum, en kranavatn er upphitað í varmaskiptum. Heitt vatn í tvöföldu dreifikerfi Orkuveitu Reykjavíkur er því ekki notað sem neysluvatn og er notendum gert að skila öllu vatni úr lokaða kerfinu til veitunnar aftur. Frá því að rekstur þessa tvöfalda kerfis hófst hefur verið nokkurt vatnstap. Þetta hefur í för með sér að fylla þarf á kerfið með tilheyrandi rekstrarvandamálum og tæringarhættu. Mikilvægt er að koma í veg fyrir tæringarhættu í dreifikerfi sem þessu. Hún er hvorttveggja fyrir hendi í dreifikerfinu og þar sem notendur nýta vatnið beint á ofnakerfi án varmaskipta og ógnar því hvorttveggja búnaði OR og viðskiptavina. Við þessu er nauðsynlegt að bregðast og því mun OR hefja íblöndun litarefnis í vatnið í lokaða kerfinu í því skyni að leita leka eða rangra tenginga. Finnist rangar tengingar eða leki í kerfinu þá þarf að laga slíkt svo fljótt sem auðið er. Sömuleiðis ef grunur er um að rangar tengingar eða leki sé til staðar óskum við eftir tilkynningu um slíkt hið fyrsta en hafa má samband við þjónustuver OR, sími 516 6000. Kort af svæði tvöfalda kerfisins - kemur hér fyrir neðan, í vinnslu.