Lífshlaupið

skrifað 14. des 2010


Átaksverkefni Lífshlaupsins hefjast í fjórða sinn miðvikudaginn 2. febrúar 2011 og standa til og með þriðjudagsins 22. febrúar. Eins og síðustu þrjú ár eru átaksverkefnin vinnustaðakeppni og hvatningarleikur grunnskólanna. Á sama tíma, eða þann 2. febrúar 2011 hefst nýtt Lífshlaupsár og stendur það til og með 1. febrúar 2012. Á því Lífshlaupsári geta einstaklingar unnið sér inn öll merki Lífshlaupsins aftur, það er brons-, silfur, gull- og platínumerki og byrjar talningin á núlli 2. febrúar.

Frá því að Lífshlaupsárið hófst 3. febrúar síðastliðinn hafa 303 einstaklingar unnið sér inn bronsmerkið, 212 silfurmerkið og 38 gullmerkið. Síðasta merkið sem hægt er að vinna sér inn er platínumerkið en þá þarf viðkomandi að vera búinn að hreyfi sig í að minnsta kosti 30 mínútur á dag í 335 daga en það verður fyrst hægt 3. janúar 2011. Nú eru 50 dagar eftir af þessu Lífshlaupsári og því hvetjum við þig til að halda áfram að skrá þína hreyfingu inná vef Lífshlaupsins og stuðla að bættri heilsu. Það þarf einungis 42 daga til að vinna sér inn bronsmerkið og því ennþá möguleiki á því áður en nýtt Lífshlaupsár hefst.

Verið er að vinna í úrbótum á vef Lífshlaupsins og munum við kynna nýjan valmöguleika í einstaklingskeppninni á næsta ári sem ber heitið "mín síða". Á þeirri síðu geta einstaklingar haldið persónulega dagbók og t.d. skráð niður matar- og svefndagbók.

Við hvetjum alla til þess að vera duglega að hreyfa sig yfir hátíðarnar og áfram á nýju ári og nýta sér það sem vefurinn hefur uppá að bjóða. Almenningsíþróttasvið ÍSÍ þakkar öllum Lífshlaupurum fyrir þátttökuna í Lífshlaupinu á árinu sem er að líða og óskar ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Nánari upplýsingar um Lífshlaupið má nálgast á heimasíðu þess, www.lifshlaupid.is eða hjá Kristínu Lilju Friðriksdóttur á netfangið kristin@isi.is eða í síma 514-4000.