Göngum í skólann í Hveragerði

skrifað 07. sep 2010
Verkefnið Göngum í skólann verður sett af stað þann 8. september og lýkur því formlega á alþjóðlega Göngum í skólann deginum 6. október næstkomandi.

Við í Grunnskólanum í Hveragerði ætlum að vera með og vonumst til að sem flestir taki þátt. Hveragerði er heilsubær í fallegu umhverfi og góðar gönguleiðir er að finna víða í bænum.

Göngum í skólann-verkefnið leggur áherslu á að börn læri á umhverfi sitt með því að ganga í skólann.Við viljum öll að börnum finnist þau vera hluti af umhverfi sínu og læri þannig að bera virðingu fyrir því. Göngum í skólann getur þar haft áhrif. Foreldrar og börn eru því hvött til að fara gangandi í skólann, a.m.k. í septembermánuði. Nota tækifærið til að kynnast sínu nánasta umhverfi og fá að auki góða og nauðsynlega hreyfingu.

Það sem við þurfum að hafa í huga:
Að öll börn kunni að fara eftir umferðareglum.
Að yngstu börnin fái fylgd með fullorðnum, amk. fyrst um sinn, foreldrar gætu talað sig saman og skipst á.
Að gefa sér nægan tíma, ekki mæta of seint í skólann.

Framkvæmd:
Við ætlum að hafa smá keppni milli bekkja eða árganga um hver stendur sig best í að koma í skólann gangandi eða hjólandi. Vonandi virkar það hvetjandi á alla. Verðlaun verða í boði.

Við munum leggja áherslu á að sem flestir gangi eða hjóli í skólann á tímabilinu 8. sept til 6. okt.

Stefnt er að því að vinna frekar með verkefnið og verður sagt frá því síðar.
Með ósk um góða þátttöku.

Jónas og Hildigunnur íþróttakennarar