Fréttatilkynning frá knattspyrnudeild Hamars

skrifað 06. ágú 2010

Knattspyrnudeild Hamars hefur tekið ákvörðun um að stofna 2. flokk karla fyrir næsta keppnistímabil! Þetta eru stór tíðindi fyrir Hamar og bæjarfélagið því 2. flokkur hefur ekki áður verið til staðar í Hveragerði. Upp úr 3. flokki eru að ganga margir efnilegir knattspyrnumenn sem nauðsynlegt er að halda vel utanum og við vonum að leikmenn sem leitað hafa í önnur félög undanfarin ár, eða hafa hætt, snúi aftur til baka. Allir leikmenn sem fæddir eru á árunum 1992, 1993 og 1994 eru gjaldgengir, en þar fyrir utan munu leikmenn U-23 liðsins fá að æfa með flokknum, auk einhverra yngri leikmanna. Það er von okkar að með þessu móti fáum við fleiri Hvergerðinga upp í meistaraflokk til að leika með aðalliði félagsins í framtíðinni. Flokkurinn, sem hefur æfingar í september, tekur þátt í Íslandsmót KSÍ og verður rekinn í nánu samstarfi við 2. deildarlið Hamars og fastlega má búast við að efnilegir leikmenn fái tækifæri á að spreyta sig með meistaraflokki. Bestu kveðjur, Ólafur Jósefsson Yfirþjálfari yngri flokka Hamars