Svala Ólafsdóttir með erindi í Listasafni Árnesinga í dag

skrifað 27. júl 2010
Svala Ólafsdóttir með erindi í máli og myndum
Þriðjudaginn 27. júlí kl. 17 í Listasafni Árnesinga
Svala (1954) er gestalistamaður Varmahlíðarhússins um þessar mundir. Hún ólst upp á Selfossi en býr nú í Bandaríkjunum. Hún sótti menntun sína til Bandaríkjanna með áherslu á ljósmyndun og hefur frá námslokum sinnt listsköpun og kennslu ytra. Nánari upplýsingar um Svölu er að finna á heimasíðu safnsins www.listasafnarnesinga.is og á heimasíðu hennar sjálfrar www.svalaolafsdottir.com

Í verkum sínum fjallar Svala meðal annars um tengslin á milli minninganna, sagnanna, og svo hins uppfundna, eða tilbúna. Hún hefur einkum fengist við ljósmyndaverk og oftar enn ekki er myndum raðað saman, tveimur eða fleirum til þess að skapa orðræðu eða ef til vill torræðu á milli einstakra ramma. Ljósmyndaverk Svölu eru ljóðræn og huglæg.

Svala mun sýna og segja frá verkum sínum í erindi í Listasafninu síðdegis í dag kl. 17. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.