Siena G. Porta – myndlistarkynning í Listasafni Árnesinga

skrifað 14. jún 2010
Á morgun, þriðjudaginn 15. júní, kl. 17 mun bandaríska myndlistakonan Siena Gillann Porta kynna verk sín í máli og myndum í Listasafni Árnesinga, en hún dvelur um þessar mundir í listamannahúsinu Varmahlíð í Hveragerði.

Siena nam myndlist við CUNY Brooklyn College, NY (B.S.1977) og Pensylvanina State University (M.F.A.1979). Áður hafði hún lokið námi í leikmyndahönnun í NY. Frá námslokum hefur Siena starfað samhliða við myndlist, sviðsmyndagerð og listkennslu.

Siena hefur einkum fengist við skúlptúr og innsetningar en einnig við teiknun og málun. Hún hefur hlotið ýmsar viðurkenningar, unnið einkasýningar og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum einkum á vestanverðum Bandaríkjunum. Frá árinu 1986 hefur hún fengist við leikmyndagerð í Broadway-leikhúsum, við Metropolitan Óperuna, kvikmyndir og sjónvarp. Síðast liðin tíu ár hefur hún kennt við Ramapo College í New Jersey og Saint Thomas Aquinas College í NY.

Siena hefur nokkrum sinnum komið til Íslands og sýndi m.a. verk sín í Gallerí Ófeigs árið 2001.
Kynningin fer fram á ensku, aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.