Hvernig staður er Listasafn Árnesinga og á það erindi við samfélagið?

skrifað 10. jún 2010

Þriðja og síðasta umræðudagskrá í tengslum við sýninguna AÐ ÞEKKJAST ÞEKKINGUNA fer fram nk. sunnudag, 13. júní kl. 15 í Listasafni Árnesinga.
Að þessu sinni er spurt hvernig staður er Listasafn Árnesinga og á það erindi við samfélagið? Inngangserindi flytur Skúli Sæland fyrir hönd Upplits - menningarklasa Uppsveita Árnessýslu. Hann mun skoða og skilgreina nærsamfélagið, tengsl þess við hið stærra samfélag og hvernig safnið getur virkað sem gátt milli nær- og fjærsamfélagsins. Inngangserindi flytja einnig sýningarstjórarnir Ingirafn Steinarsson og Ólöf Gerður Sigfúsdóttir. Þau munu gera grein fyrir núverandi sýningu og fjalla um hlutverk sýningarstjóra og miðlunarþátt safnsins. Ingirafn er starfandi myndlistamaður, Ólöf Gerður er mannfræðingur og forstöðumaður Rannsóknar-þjónustu Listaháskóla Íslands og Skúli Sæland er sagnfræðingur og meistaranemi í hagnýtri menningarmiðlun og safnafræði.Núverandi sýning AÐ ÞEKKJAST ÞEKKINGUNA er sýning 15 samtímalistamanna sem allir takast á við samtímaviðfangsefni og varpa ljósi á tengsl þekkingar og myndlistar.

Listamennirnir nálgast viðfangsefnið á margslungna vegu og verkin fjalla í senn um miðlun þekkingar og aðgengi að henni, aðferðafræði myndlistarmannsins við þekkingarsköpun sem og eðli og mismunandi tegundir þekkingar í samfélaginu. Sýningin vekur einnig upp spurningar um skilin milli persónulegrar þekkingar og sameiginlegrar þekkingar, vald og ábyrgð þeirra sem búa yfir þekkingu, sem og fagurfræði þekkingar.


Sýningin mun standa til 11. júlí og er styrkt af Menningarráði Suðurlands.

Listasafn Árnesinga í Hveragerði er opið alla daga kl. 12-18. Þar er notaleg kaffistofa, barnahorn og leskró þar sem hægt er að líta í ýmis rit um myndlist.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Inga Jónsdóttir, safnstjóri Listasafns Árnesinga Austurmörk 21, 810 Hveragerði sími: 483 1727 gsm: 895 1369 [www.listasafnarnesinga.is][1] [1]: http://www.listasafnarnesinga.is/