Framboðsfundir á Suðurland FM - útvarpi Suðurland

skrifað 05. maí 2010

Sunnlenska útvarpsstöðin [Suðurland FM 96,3][1] verður á faraldsfæti í maí og mun verða með framboðsfundi í beinni útsendingu síðustu tvær vikurnar fyrir kosningar. Alls verða fundirnir sex talsins og verður útvarpað beint frá hverju bæjarfélagi þann dag sem fundurinn er. Rætt verður við forystumenn flokkanna og farið yfir þau mál sem helst brenna á heimamönnum. Ferðalagið byrjar í Vestmannaeyjum þann 18. Maí og endar á Selfossi þann 27. Maí. Fundarstjóri verður Valdimar Bragason og mun hann njóta aðstoðar eins heimamanns á hverjum stað, og hefjast allir fundirnir kl. 20 og standa til kl. 22. Fólk er hvatt til að mæta á fundinn í sínu bæjarfélagi. Þar gefst fólki tækifæri á að spyrja frambjóðendur spurninga, skemmtiatriði verður á milli fundarliða og léttar kaffiveitingar seldar á staðnum. En fyrir þá sem ekki komast verður allur fundurinn í beinni útsendingu á FM 96,3 og á netinu á [www.963.is][1] Sem fyrr segir ætlar Suðurland FM að vera í beinni útsendingu frá hverju bæjarfélagi þann dag sem fundurinn er. Dagskrágerðarmenn stöðvarinnar verða með puttann á púlsinu um hvað er að gerast í bæjarfélaginu og spjalla við heimamenn um allt milli himins og jarðar. Svona lagað hefur aldrei verið gert áður á Suðurlandi og gefst Sunnlendingum gott tækifæri til að fylgjast með umræðunni á Suðurlandi og að koma sínu á framfæri til frambjóðenda og annarra. Fundaröðin er sem hér segir : 18. Maí Vestmannaeyjar Höllinn 19. Maí Rangárþing eystra Hvollinn 20. Maí Rangárþing ytra Safnaðarheimilið 25. Maí Ölfus Ráðhúskaffi 26. Maí Hveragerðisbær Þinghúsið (Hótel Hveragerði) 27. Maí Árborg Hvítahúsið [1]: /