Dagskrá á lokadögum sýningarinnar ÍSLENSK MYNDLIST – hundrað ár í hnotskurn

skrifað 19. apr 2010

Sumardagurinn fyrsti, 22. apríl: Inga Jónsdóttir með leiðsögn kl. 16 (breyttur tími) Sunnudagur 25. apríl: Úlfhildur Dagsdóttir - erindi kl. 15 Síðasti sýningardagur 2. maí: Leiðsögn kl. 15** *|*Hetjur, skrýmsl og skattborgarar: lesið í myndir

Daglegt umhverfi okkar er fullt af ýmiskonar upplýsingum sem við eru mislæs á. Mikill hluti þessara skilaboða eru í formi mynda, en í vestrænum samfélögum hefur myndin iðulega verið undirskipuð orðinu og álitin á einhvern hátt ó-merkileg. þetta er þó augljóslega ekki aðeins rangt, heldur hefur viðhorf sem þetta rænt okkur þeim auðæfum sem búa í myndum.

Í erindi sínu fjallar Úlfhildur um myndmál og myndlæsi og notast við dæmi úr Ikea-bæklingum, auglýsingum og myndasögum, auk annars sem til fellur og er erindið að sjálfsögðu á myndrænu formi.

Úlfhildur er bókmenntafræðingur að mennt en viðfangefni hennar og áhugi spannar víðara svið en bókmenntirnar einar. Það nær til sjónmennta, kvikmynda og þar með myndasagna, hryllings og kynjafræða svo eitthvað sé nefnt. Hún rýnir í orð og myndir og miðlar til gagns af græsku og gæsku.

Það má líka geta þess að Úlfhildur er barnabarn Kára Tryggvasonar rithöfunds, sem lengi var húsvörður í Barnaskólanum í Hveragerði.

Eftir að hafa hlýtt á erindi Úlfhildar er forvitnilegt fyrir gesti að rýna í sýninguna á safninu sem er Íslensk myndlist- hundrað ár í hnotskurn, og leita tákna, tengja og túlka. Sýningin er samstarfsverkefni með Listasafni Íslands og val verkanna á sýningunni er byggt á þeirri hugmynd að þau endurspegli ákveðinn tíðaranda og hugmyndafræði en ekki einstaka listamenn eða þróun þeirra.

Listasafn Árnesinga Austurmörk 21, 810 Hveragerði sími: 483 1727 gsm: 895 1369 [www.listasafnarnesinga.is][1] [1]: http://www.listasafnarnesinga.is/