ÍSLENSK MYNDLIST – hundrað ár í hnotskurn

skrifað 25. mar 2010

[][1]

Sunnudaginn 28. mars kl. 15.00 mun Inga Jónsdóttir ræða við gesti um sýninguna Íslensk myndlist - hundrað ár í hnotskurn
Það er ekki oft í boði að skoða á einum stað hundrað ára tímabil í íslenskri myndlist en á núverandi sýningu í Listasafni Árnesinga er leitast er við að gefa innsýn í þróun íslenskrar myndlistar á 20. öld og samspil hennar við íslenskt þjóðfélag. Þetta er samstarfsverkefni með Listasafni Íslands og val verkanna á sýningunni byggist á þeirri hugmynd að þau endurspegli ákveðinn tíðaranda og hugmyndafræði en ekki einstaka listamenn eða þróun þeirra. Þó var það haft í huga að velja listamenn og viðfangsefni af Suðurlandi þegar hægt var án þess að hverfa frá grunnhugmyndinni.

Verkin koma flest úr safneign Listasafns Íslands, en einnig eru þar verk í eigu Listasafns Árnesinga, einkum úr gjöf Bjarnveigar Bjarnadóttur og sona. Sýningarstjórar eru Dagný Heiðdal, deildarstjóri listaverkadeildar og Rakel Pétursdóttir, deildarstjóri fræðsludeildar Listasafns Íslands og Inga Jónsdóttir safnstjóri Listasafns Árnesinga.

Sýningin mun standa til 2. maí og safnið er opið fimmtudaga - sunnudaga kl. 12-18.

Um páskana er opið eins og venjulega, skírdag, föstudaginn langa, laugardag og páskadag en lokað á annan í páskum.

Aðgangur er ókeypis. [1]: http://www.listasafnarnesinga.is/