Leikfélag Hveragerðis frumsýnir Emil í Kattholti

skrifað 08. mar 2010

Nú þegar líða tekur á seinni hluta vetrar og vorið tekur á móti okkur þá höfum við hjá Leikfélagi Hveragerðis staðið í ströngu við að skipuleggja frábæra fjölskylduskemmtun sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Um er að ræða meistaraverk Astridar Lindgren um strákskrattann og ólátabelginn Emil í Kattholti í þýðingu Vilborgar Dagbjartsdóttur. Leikstjórinn að þessu sinni er Sigurður Blöndal og þekkir hann vel til félagsins því hann leikstýrði meðal annars Kardimommubænum og Dýrunum í Hálsaskógi við góðan orðstír. Er þetta tilvalin skemmtun fyrir einstaklinga og hópa sem vilja gera sér dagamun og leggja upp í einstaka fjölskylduferð. Margt hefur gengið á hjá okkur síðustu misseri og má þar nefna endurbætur á húsnæði okkar(Austurmörk 23 beint á móti Shell og við hliðina á Eden.) og í framhaldi af því setjum við upp eina umfangsmestu sviðsmynd sem við höfum gert og það fyrir pollann hann Emil. Yfir 30 manns hafa lagt hönd á plóg til að láta þessa sýningu verða að veruleika og má einnig nefna að leikfélagið var í góðu samstarfi við grunnskólann hér í bæ við smíð á hinum ýmsu leikmunum og eru einnig nokkrir nemendur skólans sem láta ljós sitt skína í verkinu. Með helstu hlutverk fara: Dagbjartur Kristjánsson sem Emil, Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir sem Ída, Gunnar Þór Jónsson sem Anton (pabbi), Hafdís Ósk Guðmundsdóttir sem Alma (mamma), Guðmundur Kr. Erlingsson sem Alfreð og

Berglind María Ólafsdóttir sem Lína.
Hér að neðan má svo sjá skipulag fyrstu sýningahelga og er þessi listi ekki tæmandi því að við munum reyna að bæta inn á milli og aftan við, dagsetningum ef það hentar betur og ef aðsókn leyfir svo ekki hika við að spyrja um dagsetningar sem ekki eru á skipulaginu og við reynum að verða við þeim óskum.

Sýningaskipulag fyrir Emil í Kattholti 13.mars Laugardagur Kl:15.00 **Frumsýning** 14.mars Sunnudagur Kl:18.00 19.mars Föstudagur Kl:18.00 20.mars Laugardagur Kl:14.00 21.mars Sunnudagur Kl:14.00 26.mars Föstudagur Kl:18.00 27.mars Laugardagur Kl:15.00

Við hjá Leikfélagi Hveragerðis höfum ávallt reynt að hafa miðaverð í lágmarki þrátt fyrir umfang sýninga og er verðskráin fyrir Emil í Kattholti sem hér segir:

Almennt verð (5ára og eldri): 1700 kr. Hópar 15+: 1500 kr. Börn 4 ára og yngri: Engir peningar :D

Miðapantanir eru í Sjoppunni Sunnumörk í síma 587-1818
frá kl.12-18 alla daga

ATH. Húsið opnar 30 mínútum fyrir áætlaðan sýningartíma og eru miðarnir greiddir á staðnum.


Emil og Ida í Kattholti


Hér er Anton, pabbi Emils, að reyna að telja dagana fram að frumsýningu.


Ida og Lína vinnukona