ÍSLENSK MYNDLIST – hundrað ár í hnotskurn

skrifað 26. jan 2010

[][1]

ÍSLENSK MYNDLIST - hundrað ár í hnotskurn
Samstarf Listasafns Árnesinga og Listasafns Íslands

Laugardaginn 30. janúar kl. 14 verður sýningin ÍSLENSK MYNDLIST - hundrað ár í hnotskurn opnuð í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Á sýningunni er leitast við að gefa innsýn í þróun íslenskrar myndlistar á 20. öld og samspil hennar við íslenskt þjóðfélag. Val verka á sýningunni byggist á þeirri hugmynd að verkin endurspegli ákveðinn tíðaranda og hugmyndafræði en ekki einstaka listamenn eða þróun þeirra. Verkin standa sem tákn um ákveðið tímabil og viðhorf til myndlistar.
Mikil áhersla er á fræðslugildi sýningarinnar og faglegt samstarf við Listasafn Íslands, sem er höfuðsafn á sviði myndlistar og sýnir hér vilja í verki að gera safneignina aðgengilegri þeim sem búa utan höfuðborgarinnar. Um langt skeið hefur Listasafn Íslands þróað faglegt samstarf við skóla og með þessari sýningu gefur það fleiri nemendum tækifæri til þess að njóta íslenskrar myndlistar og fræðast um þann sameiginlega menningararf sem Listasafn Íslands varðveitir.
Verkin á sýningunni eru flest úr safneign Listasafns Íslands, en einnig verða til sýnis verk í eigu Listasafns Árnesinga, einkum úr gjöf Bjarnveigar Bjarnadóttur og sona. Sýningarstjórar eru Dagný Heiðdal, deildarstjóri listaverkadeildar og Rakel Pétursdóttir, deildarstjóri fræðsludeildar Listasafns Íslands og Inga Jónsdóttir safnstjóri Listasafns Árnesinga.
Sýningin mun standa til 2. maí og safnið er opið fimmtudaga - sunnudaga kl. 12-18. Hægt er að panta heimsóknir fyrir skólahópa utan opnunartíma.
Aðgangur er ókeypis.

Nánari upplýsingar: Inga Jónsdóttir safnstjóri, sími 895 1369 eða [1]: http://www.listasafnarnesinga.is/