Flokkum sorpið um jólin - jólapappír og slaufur ?

skrifað 23. des 2009

Nú þegar umbúðir og gjafapappír hellast yfir heimilin sem aldrei fyrr er mikilvægt að hafa grænu tunnuna og flokkunina í huga. Í hana má bylgjupappinn fara og öll dagblöð tímarit og annar prentpappír án þess að vera í plastpoka. Morgunkornskassa og mjólkurfernur er gott að stafla hverju ofan í annað og búa til stóra klumpa sem taka svo miklu minna pláss í tunnunni. Allar plastumbúðir eiga að fara í glæra plastpoka eins og smáhlutir úr málmi. Muna að frauðplast er ekki endurvinnanlegt og því fer það í gráu tunnuna. Jólapappír er endurvinnanlegur og fer í plastpoka í grænu tunnuna, borðar og slaufur er því miður ekki endurvinnanlegt og fer því í gráu tunnuna, nema að maður endurvinni borðana og noti þá einfaldlega aftur ! Það er með ólíkindum hvað fellur til af lífrænu sorpi en í brúnu tunnana fara allir matarafgangar, plöntur og fleira lífrænt sem fellur til á heimilunum. Nauðsynlegt er að setja lífrænan úrgang í jarðgerðarpoka(maíspokann) áður en hann er settur í tunnuna. Munum að stór bein til dæmis af lambalæri jarðgerast mjög hægt og því eiga þau frekar heima í gráu tunnunni en þeirri brúnu. Frekari upplýsingar um flokkunina má finna á [www.flokkarinn.is][1] [1]: http://www.flokkarinn.is/