Styrktartónleikar fyrir Aron Eðvarð í Hveragerðiskirkju

skrifað 10. des 2009

Sunnudaginn 13. desember verða haldnir styrktartónleikar fyrir Aron Eðvarð Björnsson í Hveragerðiskirkju. Aron Eðvarð er langveikt barn en hann er með short gut bowel syndrome eða stutta görn. Það þýðir að hann getur ekki nýtt næringu úr mat.
Hann er með næringu í æð auk þess að fá mjólk í sondu. Vegna þessa er einnig mikil hætta á sýkingum og lifrarskemmdum. Í framtíðinni gæti Aron losnað af næringu í æð en aðeins tíminn getur leitt það í ljós.

Á tónleikunum koma fram þrír söngvarar sem eru enn í söngnámi hjá Alinu Dubik en þau eru Berglind Björk Guðnadóttir sópran, Árni Georgsson baritón og Ástrún Friðbjörnsdóttir sópran. Einnig koma fram barnakór grunnskólans í Hveragerði og er stjórnandi hans Heiða Margrét Guðmundsdóttir og Söngsveit Hveragerðis en stjórnandi hennar er Margrét Stefánsdóttir.
Meðleikarar eru Anna Jórunn Stefánsdóttir sellóleikari, Guðmundur Pálsson fiðluleikari, Gróa Hreinsdóttir organisti og Jóhann Stefánsson trompetleikari.

Styrktaraðilar tónleikanna eru Prentmet Suðurlands, Dvalarheimilið Ás, Hveragerðiskirkja og Kjörís.
Tónleikarnir hefjast klukkan 17:00 og aðgangseyrir er 1.500 krónur.
Allur ágóði rennur til Arons Eðvarðs.