Þráðurinn og línan á sunnudag

skrifað 20. nóv 2009


gæðastundir í Listasafni Árnesinga með Guðrúnu Tryggvadóttur og Hildi Hákonardóttur

Sunnudaginn 22. nóvember kl. 14 er gestum boðið að teikna með Guðrúnu Tryggvadóttur en hún hefur kennt teiknun víða og mun leiðbeina þáttakendum. Efni á staðnum endurgjaldlaust til afnota og tilvalið fyrir fjölskyldur og vini að njóta samveru og leiðsagnar.

Stundu síðar kl. 15 mun Hildur Hákonardóttir ræða við gesti um sýninguna Þræddir þræðir, en Hildur er höfundur nokkra verkanna. Á sýningunni er þráðurinn skoðaður sem vettvangur átaka, hvort heldur um mörk myndlistar eða togstreitu milli kynja og pólitískra afla en ímyndir þráðarins birtast á ólíkan hátt hjá þeim fjórum kynslóðum myndlistarmanna sem verk eiga á sýningunni. Nú er tækifæri til þess að komast að ýmsum leyndarmálum þráðlistar með spjalli við Hildi.

Hildur Hákonardóttir er menntaður myndlistarmaður m.a. frá Listaháskólanum í Edinborg. Hún var skólastjóri Myndlista- og handíðaskólans 1975-78, forstöðumaður Byggða- og listasafns Árnesinga 1986-93 og safnstjóri Listasafns Árnesinga 1998-2000. Hún hefur gengt ýmsum öðrum trúnaðarstörfum, sinnt listsköpun og hin síðari ár er hún einkum þekkt fyrir ræktun og ritstörf.

Guðrún Tryggvadóttir nam myndlist við listaskóla á Íslandi, í Frakklandi og Þýskalandi. Hún hefur starfað sem myndlistarmaður og myndlistarkennari en hin síðari ár hefur hún einkum sinnt hönnun og umhverfismálum. Hún er annar eigandi og framkvæmdastjóri vefsins, www.natturan.is

Nánari upplýsingar um sýningarnar í Listasafni Árnesinga og dagskrána í nóvember og desember er að finna á heimasíðu safnsins www.listasafnarnesinga.is

Listasafn Árnesinga er opið fimmtudaga - sunnudaga kl. 12 - 18 og aðgangur er ókeypis. Í safninu er hægt að kaupa kaffiveitingar, skoða upplýsingarit um myndlist og í barnahorni er hægt að dunda sér.

[Inga Jónsdóttir][1] safnstjóri Listasafn Árnesinga Austurmörk 21 810 Hveragerði sími: 483 1727 gsm: 895 1369 [www.listasafnarnesinga.is][2] [1]: mailto:listasafn@listasafnarnesinga.is [2]: http://www.listasafnarnesinga.is/