Tvær nýjar sýningar í Listasafni Árnesinga

skrifað 08. okt 2009

ÞRÆDDIR ÞRÆÐIR
Ásgerður Búadóttir Hildur Hákonardóttir Guðrún Gunnarsdóttir Hildur Bjarnadóttir
og

EINU SINNI ER
Sýning frá HANDVERKI OG HÖNNUN

Fimmtudaginn 8. október kl. 18:00 verða tvær sýningar opnaðar í Listasafni Árnesinga.

Á sýningunni Þræddir þræðir eru verk eftir Ásgerði Búadóttur, Hildi Hákonardóttur, Guðrúnu Gunnarsdóttur og Hildi Bjarnadóttur. Þar er þráðurinn skoðaður sem vettvangur átaka, hvort heldur um mörk myndlistar eða togstreitu milli kynja og pólitískra afla en ímyndir þráðarins birtast á ólíkan hátt hjá fjórum kynslóðum. Ásgerður er frumkvöðull nútíma veflistar hér á landi, en hún yfirfærði hefðbundið akademískt listnám í vefnaðinn og skapaði þannig nýja sýn á textílverk. Hildur Hákonardóttir beitti vefnaðinum sem pólitísku vopni. Hún hefur unnið með teikninguna og virkni hennar í kvennabaráttunni endurspeglast í verkunum. Guðrún hefur skapað sér ákveðna sérstöðu með efnisvali, sem er einkum vír og gúmmí. Hún hefur einnig farið út fyrir hefðbundinn mörk með því að nota efnið sem eins konar teikningu í rýminu og lætur það rjúfa mörkin milli kvenlegs handverks og karlmannlegrar hörku. Hildur Bjarnadóttir rannsakar tilveru listarinnar og mörk handverks og myndlistar á nýstárlegan hátt, en verk hennar fela einnig í sér pólitísk átök kynja og listforma.
Sýningarstjóri er Inga Jónsdóttir og í sýningarskrá ritar Úlfhildur Dagsdóttir, bókmenntafræðingur, en hún hefur einnig fengist við myndlestur.

Sýningin Einu sinn er kemur frá HANDVERKI OG HÖNNUN. Hugmyndin að henni var að hvetja til nýsköpunar og vöruþróunar með því að stefna saman tveimur ólíkum listamönnum. Tólf einstaklingar voru valdir og hver þeirra valdi sér samstarfsaðila. Þema sýningarinnar er "gamalt og nýtt" og á sýningunni má sjá fjölda nýrra og áhugaverðra nytjahluta sem unnir eru af þessum tólf pörum, en þau eru Anna Guðmundsdóttir og Tinna Gunnarsdóttir, George Hollanders og Guðrún Á. Steingrímsdóttir, Guðbjörg Káradóttir og Frosti Gnarr, Guðný Hafsteinsdóttir og Karen Ósk Sigurðardóttir, Inga Rúnarsdóttir Bachmann og Stefán Svan Aðalheiðarson, Lára Gunnarsdóttir og Sigríður Erla Guðmundsdóttir, Lára Vilbergsdóttir og Fjölnir Björn Hlynsson, Ólöf Einarsdóttir og Sigrún Ólöf Einarsdóttir, Páll Garðarsson og Margrét Jónsdóttir, Ragnheiður Ingunn Ágústsdóttir og Birna Júlíusdóttir, Sigríður Ásta Árnadóttir og Kristín Sigfríður Garðarsdóttir, Þorbergur Halldórsson og Ari Svavarsson.
Sýningin var fyrst sett upp í Safnasafninu á Svalbarðseyri í apríl á þessu ári en hefur síðan verið sett upp á Ísafirði, Egilsstöðum, Sauðárkróki og nú í Listasafni Árnesinga, Hveragerði.

Safnið er opið fimmtudaga - sunnudaga kl. 12 - 18 og sýningarnar munu standa til 6. desember 2009.