Sýningin Andans konur - Sýningarlok og sýningarspjall

skrifað 25. sep 2009


Nú eru síðustu forvöð að sjá sýninguna

ANDANS KONUR
Gerður Helgadóttir ∙ Nína Tryggvadóttir
París - Skálholt

því henni lýkur sunnudaginn 27. september og þann dag kl. 15 mun Inga Jónsdóttir safnstjóri bjóða upp á leiðsögn og ræða við gesti um sýninguna.


Fjölmargir hafa notið sýningarinnar og hún hefur hlotið mikið lof gesta enda er þar að sjá verk tveggja sterkra kvenna í íslenskri myndlist sett saman og snertifletir verka þeirra athugaðir. Útgangspunktur sýningarinnar eru verk þeirra Gerðar og Nínu í Skálholtskirkju og í undirbúningi að sýningunni uppgötvaði Ásdís Ólafsdóttir, sýningarstjóri að til eru fjöldi formynda að altaristöflu Nínu sem sýna áhugaverða hugmyndaþróun og eru þau verk nú til sýnis í fyrsta sinn.

Annar snertiflötur Gerðar og Nínu er París á sjötta áratugnum og sjá má hvernig verk þeirra frá þeim tíma kallast á, en einnig eru verk sem tengjast andlegri leit og þroska sett saman í rými. Í safninu er líka til sýnis verkið Leikur ljóss og lita, sem er myndasýning Salbjargar Ritu Jónsdóttur. Það fangar hið magnaða andrúmsloft sem ljós og litir glugganna og mósaíkverksins skapa í Skálholtskirkju.

Nína Tryggvadóttir (1913-1968) og Gerður Helgadóttir (1928-1975) voru meðal frumkvöðla í íslenskri abstraktlist á 20. öld, Nína á sviði málaralistar og Gerður í höggmyndalist. Þær bjuggu báðar í París á sjötta áratugnum og tóku virkan þátt í hræringum nútímalistar á meginlandinu. Þessar sterku og metnaðarfullu listakonur mættust í Skálholtskirkju, en þær hlutu fyrstu og önnur verðlaun í samkeppni um glerglugga byggingarinnar. Gluggar Gerðar, sem settir voru í kirkjuna 1959, eru að mestu óhlutbundnir og byggjast á djúpt hugsuðu kerfi kirkjutákna og talna. Mósaíkmynd Nínu frá 1965 sýnir loftkenndan Krist birtast í íslensku landslagi.

Safnið opið alla daga kl. 12-18 og er aðgangur ókeypis, en hægt er að kaupa kaffi í notalegri kaffistofu þar sem einnig má líta í ýmis rit um myndlist.