Bókamarkaður - prjónakvöld og fréttamolar frá bókasafninu

skrifað 04. sep 2009

Á Blómstrandi dögum var settur upp bókamarkaður í bókasafninu. Margir lögðu leið sína á markaðinn og náðu í ágætar bækur, jafnvel eitthvað sem þeir höfðu leitað að lengi. Markaðurinn verður áfram eitthvað fram í september. Sýning Hörpu J. Amin á nokkrum fantasíum í olíu og ljósmyndum verður einnig fram í september. Sumarlestrinum er nú lokið með ágætri þátttöku og miklum lestri. Dregið var í sumarlestrarhappdrættinu á Blómstrandi dögum og hlutu Aþena Íris Þórsdóttir og Anna Sigríður Jónsdóttir leikhúsmiða fyrir tvo í boði Þjóðleikhússins og Helga Sólveig Ómarsdóttir, Lára Dröfn Sigurðardóttir og Hermundur Hannesson fengu bókavinninga frá safninu. Mánudagskvöldið 7. september verður svo fyrsta prjónakvöld vetrarins. Allir eru velkomnir með prjóna eða aðra handavinnu og gaman væri að sjá afrakstur sumarsins. Við fáum gesti og kaffi verður á könnunni. Haust- og vetrardagskrá safnsins er nú í smíðum og verður kunngerð á næstunni.