Breyting á aðalskipulagi samþykkt

skrifað 10. ágú 2009

Tillaga að breytingu á aðalskipulagi Hveragerðis 2005-2017 ,,Tvöföldun Suðurlandsvegar og aðlögun á landnotkun" ásamt greinargerð og Umhverfisskýrslu var samþykkt í bæjarráði þann 7. ágúst sl. en bæjarráð fer nú með umboð bæjarstjórnar í sumarleyfi hennar. Í breytingartillögunni felst breytt lega Suðurlandsvegar til suðurs í tengslum við tvöföldun vegarins og breytingar, sem tengjast henni, bæði beint og óbeint. Einnig felst í breytingartillögunni aðlögun að nýlega samþykktum deiliskipulögum og stígum sem nýlega hafa verið lagðir. Breytingartillagan var auglýst samkvæmt 1. mgr. 21. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og lá frammi til kynningar á bæjarskrifstofum Hveragerðisbæjar og hjá Skipulagsstofnun frá 25. maí sl. Tillöguna var einnig að finna á heimasíðum Hveragerðisbæjar og Skipulagsstofnunar. Frestur til að skila inn athugasemdum rann út 6. júlí sl. Eftirfarandi eru athugasemdir sem gerðar voru við breytingartillöguna og svör skipulags- og byggingarnefndar við þeim, sem samþykkt voru á 100. fundi nefndarinnar þann 4. ágúst sl: a)Athugasemd frá Orkustofnun. ** Orkustofnun gerir ekki athugasemdir við breytingartillöguna en bendir á að meðal viðmiða sem lögð eru til grundvallar við mat á áhrifum á vatnsvernd sé rétt að nefna lög nr. 57/1998 m.s.br. um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Svar: Bréfritara er þökkuð athugasemdin. Orðið verður við athugasemdinni og viðkomandi texta bætt í Umhverfisskýrslu. **b)Athugasemd frá Nirði Sigurðssyni og Kolbrúnu Vilhjálmsdóttur, Heiðarbrún 62, 810 Hveragerði. ** Njörður og Kolbrún gera athugasemdir við að gert sé ráð fyrir að Suðurlandsvegur verði á nánast sama stað og hann er nú og telja heillavænlegra fyrir íbúa Hveragerðis að færa veginn niður fyrir skipulagða byggð þannig að hann kljúfi ekki bæinn í tvennt í framtíðinni. Einnig gera þau athugasemdir við auglýsingu tillögunnar og fara fram á að hún verði auglýst á nýjan leik og hún kynnt betur. Svar: Bréfritara er þökkuð athugasemdin. Varðandi legu Suðurlandsvegar er vísað til svars við athugasemd c). Varðandi auglýsingu og kynningu á tillögunni er því til að svara að tillagan var kynnt á sérstökum íbúafundi þann 25. mars og var boðað til fundarins með dreifibréfi í hvert hús í Hveragerði og að auglýsingu tillögunnar var staðið samkvæmt því sem lög og reglur segja til um. Auk þessa má benda á að Vegagerðin kynnti með opinberum hætti ,,Drög að tillögu að matsáætlun" í apríl 2008 og frummatsskýrslu að breyttum Suðurlandsvegi, ,,Tvöföldun frá Hólmsá ofan Reykjavíkur að Hveragerði" í mars 2009 þar sem m.a. var gerð grein fyrir fyrirhugaðri legu vegarins við Hveragerði. **c)Undirskriftarlisti frá 295 aðilum. ** Undirritaðir mótmæla fyrirhugaðri legu Suðurlandsvegar og telja það mun vænlegri kost að færa veginn lengra til suðurs eins og gert var ráð fyrir á aðalskipulagi árin 1994-2006. Gerð er krafa um að tillögunni verði hafnað og til vara að afgreiðslu hennar verði frestað og hún kynnt betur s.s. með almennum borgarafundum nú í haust. Svar: Bréfritara og undirskriftaraðilum er þökkuð athugasemdin. Rétt er að í aðalskipulagi 1993-2013 var sýndur möguleiki á breyttri framtíðarlegu Suðurlandsvegar. Það skipulag gerði einnig ráð fyrir að skipulögð byggð teygði sig mun skemur til suðurs en núgildandi aðalskipulag segir fyrir um. Við endurskoðun Aðalskipulags Hveragerðisbæjar 2005-2017, sem lauk vorið 2006, var tekin afstaða til þess hvort Suðurlandsvegur skyldi liggja því sem næst í núverandi vegarstæði eða hvort færa ætti veginn suður fyrir skipulagða byggð. Báðir valkostir voru metnir og ræddir á kynningarfundum með íbúum og víðar, sem og með fulltrúum Vegagerðarinnar. Niðurstaðan varð sú að hagsmunum almennings, landeigenda og þjónustuaðila í Hveragerði væri betur borgið með núverandi legu vegarins. Bent er á að breytingartillagan er ekki frávik frá þeirri stefnu, sem mörkuð var í aðalskipulagi Hveragerðis 2005-2017 heldur er verið að koma til móts við kröfur Vegagerðarinnar um nægjanlegt landrými fyrir mislæg gatnamót á móts við Breiðumörk/Þorlákshafnarveg. Þannig gerir tillagan ráð fyrir að vegurinn færist frá núverandi vegarstæði allt að 115 metra til suðurs (þar sem færslan er mest) á kaflanum frá neðstu beygju í Kömbum og austur fyrir Heiðarbrúnarhverfi. Í kafla 4.15 um samgöngur í gildandi greinargerð aðalskipulags er gerð grein fyrir afstöðu bæjaryfirvalda til færslu Suðurlandsvegar. Þar segir m.a. um mat á umhverfisáhrifum samgangna: ,,Í aðalskipulaginu er ekki gert ráð fyrir færslu Suðurlandsvegar til suðurs, líkt og gert var í aðalskipulagi Hveragerðis 1993 - 2013. Þess í stað er gert ráð fyrir tvöföldun Suðurlandsvegar og er hún eflaust stærsta vegframkvæmdin innan sveitarfélagsins í framtíðinni. Frá því Suðurlandsvegur var færður í kringum 1975 hefur núverandi byggð þróast tiltölulega hratt að útjaðri vegarins með tilheyrandi kostnaði. Ekki er talin ástæða til að endurtaka þann samfélagslega kostnað sem slík færsla á veginum gæti kostað enda liði skammur tími þar til byggðin væri aftur komin að jaðri vegarins. Litið er á Suðurlandsveg sem hluta af Hveragerði enda hefur þessi þjóðleið legið um bæinn frá upphafi og falið í sér ýmis tækifæri. Tvöföldun Suðurlandsvegar á núverandi stað gerir það jafnframt að verkum að stór byggingarsvæði haldast óskert sunnan þjóðvegarins. Umhverfisleg áhrif þess að falla frá færslu vegarins og taka þess í stað upp tvöföldun vegarins hefur því jákvæð áhrif á byggð og byggðaþróun í Hveragerði. Mislægar tengingar fyrir akandi, hjólandi, gangandi og ríðandi umferð milli núverandi byggðar norðan þjóðvegar og framtíðarbyggðar sunnan vegar, tryggja skilvirkar og öruggar samgöngur og að Hveragerði geti vaxið sem ein heild til suðurs. Mikilvægt er að gefa tvöfölduninni þá rýmd sem hún krefst og er það gert í aðalskipulaginu eins og það liggur fyrir nú. Ef til greina kæmi að þjóðvegurinn yrði færður í fjarlægri framtíð er rétt að geta þess að skilið er eftir um 100 m breitt belti á suðurmörkum sveitarfélagsins, merkt sem opið óbyggt svæði." Þessu til viðbótar er rétt að geta þess að í landnotkun tillögunnar er gert ráð fyrir að neðsta beygja í Kömbum geti í framtíðinni víkkað úr um 300m radíus í um 500m þó að sú framkvæmd nái ekki inní fyrirhugaða tvöföldun vegarins nú. Varðandi kynningu og auglýsingu tillögunnar er vísað til svara við athugasemd b) hér að framan. **d)Athugasemd frá Róberti Péturssyni, Álfahvammi, 810 Hveragerði. 1.Róbert telur engan vafa á því að vegarstæði Suðurlandsvegar sé betur komið fyrir sunnan skipulagða byggð og leggur til að engin tillaga verði staðfest sem útiloki flutning á veginum þangað. 2.Róbert telur að leggja eigi háspennulínuna (Búrfellslínu 2) í jörð eða flytja hana suður fyrir framtíðarbyggðina því núverandi lega hennar hindri eðlilega þróun byggðar. 3.Róbert bendir á að hann hafi gert á sínum tíma athugasemd við stækkun skólalóðar inní skrúðgarðinn við Reykjafoss og leita hefði átt annarra leiða til lausnar vanda skólans. Svar: Bréfritara er þökkuð athugasemdin og svar við henni er hér að neðan í samræmi við númeringu bréfritara. 1.Varðandi legu Suðurlandsvegar er vísað til svars við athugasemd c) hér að framan. 2.Rétt er að vegurinn mun liggja samsíða Búrfellslínu 2 en Sogslína verður tekin niður og við það skapast aukið rými fyrir vegalagningu. Það að láta háspennulínuna fylgja tvöföldun vegarins kemur ekki í veg fyrir þróun byggðar þar sem áhrifasvæði þessara tveggja mannvirkja er nánast hið sama. Rétt er að skipulagsmál eru í höndum sveitarfélaga og þau viðfangsefni sem athugasemdin snýr að eru unnin í nánu samráði við Vegagerð og Landsnet sem að fullu virða gildandi aðalskipulag Hveragerðisbæjar. 3.Athugasemd vegna skrúðgarðs tilheyrir ekki þessu máli en bréfritara er þökkuð ábendingin. e)Athugasemd frá Fornleifavernd ríkisins. Fornleifavernd ríkisins gerir athugasemd við orðalag í 3. kafla Umhverfisskýrslu þar sem segir ,,Í fornleifaskrá er ekki getið um neinar fornleifar í Hveragerði". Hið rétta er að í fornleifaskrá er ekki er getið um neinar friðlýstar fornleifar. F.r. vekur athygli á umsögn sinni um tvöföldun Suðurlandsvegar frá Hólmsá ofan Reykjavíkur að Hveragerði þar sem fjallað er um ,,Kamba" og ,,Hestaskjól". Bent er á sækja þarf um leyfi Fornleifaverndar ríkisins til að raska gamla sýsluveginum (gamla Þorlákshafnarveginum), sbr. 10. gr. Þjóðminjalaga og að fornleifaskráning þurfi að fara fram á svæðinu sunnan núverandi Suðurlandsvegar en þar sé einungis búið að skrá næsta nágrenni gamla bæjarstæðisins á Vorsabæ. Svar: Bréfritara er þökkuð athugasemdin og orðið verður við henni á viðkomandi stað í greinargerð. Guðmundur F. Baldursson, skipulags- og byggingarfulltrúi.