Ábendingar vegna hópa með Strætó

skrifað 22. maí 2009

Reynsla þessara mánaða sem Strætó hefur ekið milli Árborgar, Hveragerðis og Reykjavíkur hefur sýnt að mikil þörf var á þessari þjónustu enda nýtur hún mikilla vinsælda. Undanfarið hefur borið á því að stærri hópar (leik-, grunnskólar og íþróttafélög) hafa nýtt Strætó til ferðalaga enda ferðamátinn einn sá hagkvæmasti sem völ er á. Í þessum tilfellum er rétt að hafa nokkur atriði í huga:

 Strætó mælist til að stærri hópar taki sér ekki far með Strætó á annatímum á virkum dögum. Annatími er milli kl. 7:00 og 9:00 á morgnana og 15:30 og 18:00 seinnipartinn.

 Á tímabilinu 9:00 - 15:30 á virkum dögum eru mun færri farþegar í vögnunum og því meiri líkur á nægu plássi. Hópar eru beðnir að nýta sér þennan tíma frekar og þannig koma í veg fyrir möguleg vandræði á báða bóga.

 Mælst er til að hópar séu ekki fjölmennari en 20 einstaklingar í sömu ferðinni. Ef ætlunin er að ferðast með stærri hópa er mælst til að hópnum sé tví- eða þrískipt.

Einnig er mikilvægt að láta vita af öllum stærri hópum. Er það best gert með því að hafa samband við Strætó bs í síma: 540-2700.

Hveragerðisbær og Strætó bs kappkosta að þjónusta viðskiptavini Strætós með sem bestum hætti. Brugðist hefur verið við ábendingum og óskum viðskiptavina þegar það er hægt og mun slíkt verða gert áfram.