Samræður á sunnudegi, 24. maí kl. 15:00 í Listasafni Árnesinga

skrifað 20. maí 2009

Haraldur Jónsson ræðir við gesti sýningarinnar Leiftur á stund hættunnar
Sunnudaginn 24. maí kl. 15:00 mun Haraldur Jónsson ræða við gesti sýningarinnar Leiftur á stund hættunnar sem nú stendur í Listasafni Árnesinga. Á sýningunni eru verk eftir átta íslenska myndlistarmenn sem allir vinna með ljósmyndina í list sinni og hafa á undanförnum árum hlotið mikla athygli bæði hér heima og erlendis fyrir verk sín. List þeirra er á margan hátt alþjóðleg og fjallar um veruleikann á persónulegan en um leið margslunginn hátt. Haraldur mun fyrst og fremst fjalla um sín verk og nálgunina á viðfangsefninu en mun einnig svara spurningum gesta eftir bestu getu.
Sýningin sækir heiti sitt í frægan texta eftir þýska menningarfræðinginn Walter Benjamin sem vísar til þess að nauðsynlegt sé að brjóta upp viðtekin viðhorf um sannleikann og veruleikann í kringum okkur með því að varpa á hann óvæntu og oft á tíðum ófyrirsjáanlegu ljósi, líkt og ljósmyndin sjálf kann að gera. Sýningin byggir á þessari hugsun og eru verk eftir ólíka listamenn jafnframt tengd við hugmyndir heimspekinga og rithöfunda um meðvitaðar og ómeðvitaðar minningar og sannleikann sem kristallast í einu einstöku broti veruleikans.
Haraldur er einn þeirra átta sem eiga verk á sýningunni. Hann lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1987 og Listaakademíunni í Düsseldorf í Þýskalandi 1990. Þá nam hann við Institut des Hautes Etudes en Arts Plastiques í París í Frakklandi í eitt ár. Haraldur er í hópi framsæknustu myndlistarmanna sinnar kynslóðar og notar ýmsa miðla við sköpunina. Á sýningunni í Listasafni Árnesinga er til sýnis hluti úr myndröðinni TSOYL, The Story of Your Life, sem hann hófst handa við árið 1988 og er enn að vinna að. Frá árinu 1989 hefur Haraldur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum og haldið einkasýningar hérlendis sem erlendis og verk hans er að finna í helstu opinberum söfnum hérlendis, í Noregi og í ýmsum einkasöfnum víða um heim. Haraldur var tilnefndur til Menningar-verðlauna DV 2009 fyrir sýningu sína Myrkurlampi sem og fyrir bók sína Fylgjur árið 1998.
Aðrir listamenn sem eiga verk á sýningunni eru Pétur Thomsen, Kristleifur Björnsson, Katrín Elvarsdóttir, Ingvar Högni Ragnarsson, Einar Falur Ingólfsson, Gréta S. Guðjónsdóttir og Charlotta Hauksdóttir. Sýningarstjóri er Sigrún Sigurðardóttir menningarfræðingur. Sýningin mun standa til 28. Júní.
Listasafn Árnesinga í Hveragerði er opið alla daga kl. 12-18. Þar er notaleg kaffistofa, barnahorn og leskró þar sem hægt er að líta í ýmis rit um myndlist. Aðgangur er ókeypis. Myndin hér að ofan,TSOYL-822, er eftir Harald Jónsson og er úr myndaseríunni TSOYL, 1988-Inga Jónsdóttir
safnstjóri
Listasafn Árnesinga
Austurmörk 21
810 Hveragerði
sími: 483 1727
gsm: 895 1369
www.listasafnarnesinga.is