Samræður á sunnudegi í Listasafni Árnesinga

skrifað 14. maí 2009

Pétur Thomsen ræðir við gesti sýningarinnar Leiftur á stund hættunnar.
Sunnudaginn 17. maí kl. 15:00 mun Pétur Thomsen ræða við gesti sýningarinnar Leiftur á stund hættunnar sem nú stendur í Listasafni Árnesinga. Á sýningunni eru verk eftir átta íslenska myndlistarmenn sem allir vinna með ljósmyndina í list sinni og hafa á undanförnum árum hlotið mikla athygli bæði hér heima og erlendis fyrir verk sín. List þeirra er á margan hátt alþjóðleg og fjallar um veruleikann á persónulegan en um leið margslunginn hátt. Pétur mun fyrst og fremst fjalla um sín verk og nálgunina á viðfangsefninu en mun einnig reyna að svara spurningum gesta.
Sýningin sækir heiti sitt í frægan texta eftir þýska menningarfræðinginn Walter Benjamin sem vísar til þess að nauðsynlegt sé að brjóta upp viðtekin viðhorf um sannleikann og veruleikann í kringum okkur með því að varpa á hann óvæntu og oft á tíðum ófyrirsjáanlegu ljósi, líkt og ljósmyndin sjálf kann að gera. Sýningin byggir á þessari hugsun og eru verk eftir ólíka listamenn jafnframt tengd við hugmyndir heimspekinga og rithöfunda um meðvitaðar og ómeðvitaðar minningar og sannleikann sem kristallast í einu einstöku broti veruleikans.
Pétur er einn þeirra átta sem eiga verk á sýningunni. Hann nam ljósmyndun í Ecole Supérieure des Métiers Artistiques í Montpellier og og lauk mastergráðu frá École Nationale Supérieur de la Photographie (ENSP) í Arles, Frakklandi árið 2004. Pétur hefur verið virkur í sýningarhaldi hérlendis og erlendis og verk eftir hann í eigu opinberra safna innanlands og utan. Hann hefur verið tilnefndur til mikilsvirtra verðlauna og hlotið m.a. alþjóðlegu unglistaverðlaun LVMH - Louis Vuitton Moët Hennessy. Árið 2005 var Pétur valinn til þátttöku í sýningunni ReGeneration, 50 ljósmyndarar framtíðarinnar, sem fyrst var opnuð í Elysée safninu í Sviss en síðan sett upp víða, m.a. í Bandaríkjunum og Rússlandi. Einkasýningar fyrir utan Íslands hafa verið settar upp í Frakklandi, Rússlandi, Sviss og Sýrlandi.

Aðrir listamenn sem eiga verk á sýningunni eru Kristleifur Björnsson, Katrín Elvarsdóttir, Ingvar Högni Ragnarsson, Haraldur Jónsson, Einar Falur Ingólfsson, Gréta S. Guðjónsdóttir og Charlotta Hauksdóttir. Sýningarstjóri er Sigrún Sigurðardóttir menningarfræðingur. Sýningin mun standa til 28. Júní.

Listasafn Árnesinga í Hveragerði er opið alla daga kl. 12-18. Þar er notaleg kaffistofa, barnahorn og leskró þar sem hægt er að líta í ýmis rit um myndlist. Aðgangur er ókeypis.


Myndin er eftir Pétur Thomsen og ber heitið Il y a (Það er), 026 012, Kronstadt, Rússland, 2005


Nánari upplýsingar: Inga Jónsdóttir, safnstjóri, sími 895 1369, www.listasafnarnesinga.is