Ný sýning í Listasafni Árnesinga

skrifað 04. maí 2009

Leiftur á stund hættunnar

Charlotta Hauksdóttir · Einar Falur Ingólfsson ·
Gréta S. Guðjónsdóttir · Haraldur Jónsson · Ingvar Högni Ragnarsson ·
Katrín Elvarsdóttir · Kristleifur Björnsson

Sýningarstjóri er Sigrún Sigurðardóttir

Sýningin stendur frá 2.maí - 28. júní 2009
Á sýningunni verða sýnd verk eftir átta íslenska myndlistarmenn sem allir vinna með ljósmyndina í list sinni og hafa á undanförnum árum hlotið mikla athygli bæði hér heima og erlendis fyrir verk sín. List þeirra er á margan hátt alþjóðleg og fjallar um veruleikann á persónulegan en um leið margslunginn hátt.

Sýningin sækir heiti sitt í frægan texta eftir þýska menningarfræðinginn Walter Benjamin sem vísar til þess að nauðsynlegt sé að brjóta upp viðtekin viðhorf um sannleikann og veruleikann í kringum okkur með því að varpa á hann óvæntu og oft á tíðum ófyrirsjáanlegu ljósi, líkt og ljósmyndin sjálf kann að gera. Sýningin byggir á þessari hugsun og eru verk eftir ólíka listamenn jafnframt tengd við hugmyndir heimspekinga og rithöfunda um meðvitaðar og ómeðvitaðar minningar, og sannleikann sem kristallast í einu einstöku broti veruleikans.