Fyrirlestur um hönnun – á sýningunni SKART OG SKIPULAG

skrifað 02. apr 2009
Laugardaginn 4. apríl kl. 13:00 mun Elísabet V. Ingvarsdóttir flytja erindi í Listasafni Árnesinga. Þar mun hún fjalla um íslenska hönnun og íslenska ímynd og skoða í samanburði við hina sterku hönnunarímynd sem Danir hafa skapað og meðal annars er hægt að sjá á sýningunni SKART OG SKIPULAG, sem nú stendur yfir í Listasafninu.
Elísabet lauk mastersprófi í hönnunarsögu (Design History) frá Kingston University, London 2006. Ritgerðin fjallaði um þjóðarímynd í íslenskri hönnun með áherslu á húsgögn og innréttingar. Elísabet hefur BA próf sem innanhússarkitekt og starfaði við það í fjölmörg ár auk þess að afla sér réttinda til kennslu sem hefur verið hennar aðalstarf undanfarin ár. Elísabet var annar stjórnanda Hönnunarbrautar Iðnskólans í Reykjavík (nú Tækniskólinn) í um átta ár og starfar þar enn sem kennari auk stundakennslu við LHÍ og sinnir einnig ýmsum sértækum skrifum og verkefnum tengdum hönnun. Elísabet er hönnunargagnrýnandi Morgunblaðsins og pistilhöfundur um hönnun.
Ókeypis aðgangur er að fyrirlestrinum og allir velkomnir. Þetta er einstakt tækifæri til að skoða danska skartgripahönnun s.l. hálfa öld, íslenska framúrskarandi skartgripahönnun eftir Guðbjörgu Kristínu Ingvarsdóttur og hlýða á forvitnilegan fyrirlestur Elísabetar. Sjá nánar á www.listasafnarnesinga.is


Inga Jónsdóttir safnstjóri Listasafns Árnesinga

gsm: 895 1369