mmm...menningardagskrá á mánudögum í Listasafni Árnesinga

skrifað 17. nóv 2008

MÁLIÐ MYNDLISTIN OG MÚSKÍIN Um er að ræða samstarfsverkefni Listasafnsins og Bókasafnsins í Hveragerði, en næstu þrjá mánudaga verður dagskrá í boði þar sem þessum greinum er tvinnað saman gestum til ánægju. Verkefnið hlaut nýverið styrk frá Menningarráði Suðurlands og auk skipuleggjenda koma Grunnskólinn í Hveragerði, Tónlistarskóli Árnesinga og Hljómlistarfélag Hveragerðis að verkefninu. Mánudagskvöldið 24. nóvember er helgað Steini Steinarri. Hjalti Rögnvaldsson leikari og nemendur úr 9. bekk Grunnskólans lesa texta eftir Stein, Pjetur Hafstein Lárusson mun flytja erindi um hann og félagar úr Hljómlistarfélag Hveragerðis flytur tónlist eftir BergÞóru Árnadóttur við texta Steins. Mánudagssíðdegið 1. desember á fullveldisdegi landsins er tileinkað börnum. Krisín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur mun flytja dagskrá um hina uppátektarsömu Fíusól og nemendur úr 7. bekk Grunnskólans lesa upp úr nýjum íslenskum barnabókum. Nemendur Tónlistarskóa Árnesinga leika tónlist. Mánudagskvöldið 8. desember er gestum boðið að hlýða á upplestur úr nýútkomnum bókum og tónlistarflutning á vegum Tónlistarskóla Árnesinga. Auður Jónsdóttir les úr bók sinni Vetrarsól, Guðrún Eva Mínervudóttir les úr Skaparanum, Gyrðir Elíasson les úr bók um föður sinn, myndlistarmanninn Elías B. Halldórsson, Hallgrímur Helgason les úr bókinni 10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp og Þorsteinn Antonsson les úr ættarsögunni Álfar og menn. Myndlistin sem í boði er, er PICASSO Á ÍSLANDI, núverandi sýning í Listasafni Árnesinga þar sem skoða má bein og óbein áhrif spænska myndlistarmannsins Picasso í íslenskri myndlist samkvæmt tillögum sýningarstjórans Helga Þorgils Friðjónssonar myndlistarmanns. Til sýnis eru verk frá fyrri hluta síðustu aldar til samtímans eftir Picasso og 26 íslenska myndlistarmenn. Mmm-dagskrá mánudaganna hefst kl. 20 nema 1. des þá hefst hún kl. 17. Boðið verður upp á kaffi, safa og piparkökur. Allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis.