Safnahelgi á Suðurlandi 7. – 9. nóvember 2008 Matur og menning úr héraði!

skrifað 04. nóv 2008

Söfn um allt Suðurland og í Vestmannaeyjum bjóða upp á fjölbreytta menningardagskrá helgina 7. - 9. nóvember 2008. Yfirskrift dagskrárinnar verður Safnahelgi á Suðurlandi með undirtitilinum Matur og menning úr héraði því auk hins sögulega og menningarlega hluta dagskrárinnar verður minnt á gamlar og nýjar hefðir í matargerðarlist í héraðinu.
Það eru Safnaklasi Suðurlands og Matarkista Suðurlands sem standa að dagskránni en hátt í eitt hundrað aðilar (söfn og veitingastaðir) eru þátttakendur í þessum tveimur klösum sem stofnaðir eru með stuðningi Vaxtarsamnings Suðurlands og Vestmannaeyja. Verkefnið nýtur einnig stuðnings Menningarráðs Suðurlands, Atvinnuþróunarfélags Suðurlands, SASS og Iðnaðarráðuneytisins.
Hugmyndin að baki Safnahelgi á Suðurlandi er að þjappa hinum mörgu og fjölbreyttu söfnum landshlutans saman um einn sameiginlegan viðburð og bjóða íbúum héraðsins og gestum að njóta þess sem söfnin hafa upp á að bjóða. Matarklasinn kemur að dagskránni með því að fjöldi veitingahúsa býður upp á það besta í sunnlenskri matarhefð. Boðið er upp á dagskrá frá föstudegi til sunnudags, en staðirnir eru þó með mismunandi opnunartíma.
Meðal fjölmargra dagskráratriða má nefna sýningar, tónleika, fyrirlestra, upplestra og leiðsagnir. Svo verður víða hægt að smakka á gömlum og nýjum réttum eins og ástarpungum, heitu súkkulaði, lunda, fýl, sviðum, humarsúpu, pönnukökum, sunnlensku grænmeti og kartöfluréttum. Söfn og veitingastaðir verða opin upp á gátt og starfsfólk þeirra tekur fagnandi á móti gestum og gangandi.
Sunnlensk menningararfleið býður gesti velkomna á Safnahelgi á Suðurlandi 7. - 9. nóvember. Dagskráin er birt í heild á vefnum [www.sofnasudurlandi.is][1]

[Smellið hér til að opna dagskrána fyrir Hveragerði][2]
[1]: http://www.sofnasudurlandi.is/ [2]: http://hveragerdi.is/content/files/public/_PDF/Ymislegt/Safnahelgi%20%C3%A1%20Su%C3%B0urlandi.pdf