Sýning Höskuldar Björnssonar - Á ferð með fuglum

skrifað 29. ágú 2008

Sunnudaginn 31. ágúst kl. 15 mun Inga Jónsdóttir safnstjóri ræða við gesti um Höskuld og verk hans á sýningunni.

En sýning þessa helsta fuglamálara Íslands stendur nú yfir í Listasafni Árnesinga. Þessi sérstaða hans sem fuglamálara hélst vel fram á sjöunda áratuginn og í hugum margra landsmanna lifir hann enn sem slíkur. Flest verkanna á sýningunni eru fuglamyndir, en þar má líka sjá landlagsmyndir, sjálfsmyndir, uppstillingar og myndskreytt sendibréf. Inga mun segja frá Höskuldi og skapa umræður meðal gesta um verk hans. Sýningin stendur til 28. september.

Þetta er safnið ykkar, staður sem hægt er að eiga gæðastundir einn, með fjölskyldunni eða öðrum gestum og ef til vill uppgötva eitthvað í leiðinni.

Í safninu er hægt að kaupa kaffiveitingar, skoða upplýsingarit um myndlist og í barnahorni er hægt að byggja úr kubbum.

Aðgangur er ókeypis.