Á ferð með fuglum

skrifað 25. júl 2008


Fréttatilkynning:

Á FERÐ MEÐ FUGLUM

Sunnudaginn 27. júlí kl.15 opnar sýning á verkum Höskuldar Björnssonar í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Höskuldur skipar sérstakan sess í íslenskri listasögu en hann var lengi vel helsti fuglamálari Íslands.

"Sýningin ber nafnið Á ferð með fuglum, en þar má sjá á níunda tug verka eftir Höskuld. Þetta eru aðallega olíumálverk og vatnslitamyndir en einnig má þar finna teikningar og verk unnin með blandaðri tækni," segir Hrafnhildur Schram, sýningarstjóri sýningarinnar. "Þáttur Höskuldar í íslenskri listasögu er merkur en hann var fyrstur til að kanna áður ónýtt myndefni úr íslenskri náttúru - fuglalífið. Hann notaði þetta myndefni á markvissan hátt og það varð með tímanum veigamesti þátturinn í listsköpun hans."

Sérstaða Höskuldar sem helsta fuglamálara landsins hélst vel fram á sjöunda áratuginn og í hugum margra landsmanna lifir hann enn sem slíkur. Höskuldur var einnig afkastamikill landslagsmálari en hann málaði fyrst og fremst á suður- og suðausturlandi og einbeitti sér meðal annars að fjarlægum sjóndeildarhringnum og óendanlegum himni hins víðáttumikla landslags.

Höskuldur fæddist í Dilksnesi í Nesjum á Hornafirði 26. júlí árið 1907 en bjó síðustu sautján ár ævi sinnar í Hveragerði þar sem hann lést árið 1963. "Hveragerði var sannkölluð listamannanýlenda á árunum eftir stríð, en þá bjó hér fjöldi þjóðþekktra listamanna; listmálarar og myndhöggvarar, tónskáld, rithöfundar og skáld," segir Inga Jónsdóttir, safnstjóri LÁ, og bætir við að tímabært sé að rifja upp þessa merku sögu og heiðra minningu listamannanna. "Við bjóðum áhugasama velkomna á opnunina á sunnudag en þá mun Hörður Friðþjófsson leika valin lög á klassískan gítar. Svo er safnið opið alla daga í sumar frá kl. 12-18, en þar má kaupa kaffi og meðlæti, glugga í upplýsingarit um myndlist og leyfa yngstu kynslóðinni að njóta sín í barnahorninu."

Nánari upplýsingar veitir
Inga Jónsdóttir, safnstjóri, í síma 895 1369

Sýningarstjóri
Hrafnhildur Schram lauk licentiatsprófi í listasögu frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Hún hefur starfað sem safnstjóri Listasafns Ásgríms Jónssonar, Listasafns Einars Jónssonar og verið deildarstjóri í Listasafni Íslands.
Hrafnhildur hefur kennt listasögu, ritað listagagnrýni og fjölda greina um íslenska myndlist í blöð og tímarit og unnið heimildarmyndir fyrir sjónvarp um íslenska myndlistarmenn. Hún hefur unnið að rannsóknum á íslenskum myndlistarkongum og er höfundur fyrstu sérbókar um íslenska myndlistarkonu, Nínu Tryggvadóttur. Árið 2005 sendi hún frá sér bókina Huldukonur í íslenskri myndlist sem fjallar um fyrstu konurnar sem sigldu til myndlistarnáms í Kaupmannahöfn. Hrafnhildur starfar nú sem sjálfstæður fræðimaður og rithöfundur.