Íslenski safnadagurinn 13. júlí 2008

skrifað 08. júl 2008

Ratleikur fyrir fjölskylduna á sýningunni Listamaðurinn í verkinu: Magnús Kjartansson

Til þess að vekja athygli á fjölbreyttri starfsemi safnanna í landinu og þeirri faglegu vinnu sem þar fer fram, hefur annar sunnudagur í júlí verið tilnefndur íslenski safnadagurinn og bjóða þá mörg söfnin upp á dagskrá í tilefni dagsins. Í Listasafni Árnesinga verður hægt að fara í ratleik um sýninguna Listamaðurinn í verkinu - Magnús Kjartansson og er fjölskyldan hvött til að njóta samverunnar og gera sér glaðan dag í safninu.Senn líður að lokum þessarar sýningar á verkum Magnúsar en hún hefur verið mjög vel sótt og var á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík. Á sýningunni eru 43 verk sem Magnús vann á pappír milli 1982 og 1988 og hafa aðeins fáein af þessum verkum áður verið sýnd. Í þeim má rekja tilraunir Magnúsar með ýmsar ljósprentsaðferðir sem gerðu honum kleift að þrykkja hluti, myndir og jafnvel eigin líkama beint á pappírinn. Verkin marka mikið umbrotatímabil í list Magnúsar þar sem hann reiddi sig minna á fágun og formtækni en áður og gekk nær sjálfum sér, bæði í myndefninu og aðferðunum við gerð myndanna. Líkamleg tjáning í þessum verkum er sterk og þar birtast handa og jafnvel fótaför innan um ágengar táknmyndir svo tjáning þeirra er einna líkust dansi og sterkir litir og kröftug teikning draga áhorfandann nær.
Listasafn Árnesinga í Hveragerði er opið alla daga kl. 12 - 18. Hægt er að kaupa kaffi og vöfflur í kaffistofu safnsins. Núverandi sýning stendur til 20. júlí og er aðgangur ókeypis.

Nánari upplýsingar veitir
Inga Jónsdóttir sími 895 1369, listasafn@listasafnarnesinga.is