Tónlistarhátíðin Bjartar sumarnætur í Hveragerði

skrifað 08. maí 2008

Fjölbreytt og aðgengileg dagskrá við allra hæfi

Tónlistarhátíðin Bjartar sumarnætur verður haldin í Hveragerðiskirkju dagana 30. maí - 1. júní nk. í áttunda sinn. Tónleikarnir verða þrennir, föstudagskvöld, laugardag og sunnudag. Listrænir stjórnendur eru nú sem fyrr hjónin Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari og Gunnar Kvaran sellóleikari. Þau skipa ásamt Peter Máté píanóleikara Tríó Reykjavíkur. Auk tríósins koma fram á hátíðinni sópransöngkonan Sigrún Hjálmtýsdóttir, píanóleikarinn Anna Guðný Guðmundsdóttir, klarinettuleikarinn Sigurður I. Snorrason, víóluleikarinn Þórunn Ósk Marinósdóttir og síðast en ekki síst Hulda Jónsdóttir, ungur fiðluleikari úr Hveragerði. Á efniskrá allra þrennra tónleikanna er fjölbreytt og aðgengileg tónlist þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Fyrstu tónleikarnir, föstudagskvöldið 30. maí kl. 20, eru hátíðartónleikar tileinkaðir Johannesi Brahms á 175 ára fæðingarafmæli hans. Messiaen, Mozart og meira til er yfirskrift annarra tónleikanna, laugardaginn 31. maí kl. 17. Þá verða leikin verk eftir Olivier Messiaen og Wolfgang Amadeus Mozart. Meðal annars mun Diddú syngja nokkrar vel valdar glæsiaríur og má þar nefna aríu Næturdrottningarinnar úr Töfraflautunni eftir Mozart. Á þessum tónleikum verður einnig heiðruð minning vísnasöngkonunnar Bergþóru Árnadóttur frá Hveragerði með flutningi á lagi hennar, "Hveragerði", en hún hefði orðið sextug á árinu. Þriðju og síðustu tónleikarnir, sunnudagskvöldið 1. júní kl. 20, bera yfirskriftina Með frönskum blæ. Þar fá áheyrendur að kynnast franskri tónlist í léttari kantinum eftir Gabriel Pierné, Leo Delibe og Louis Louiguy. Einnig eru á efnisskránni verk eftir Ernest Chausson, Pablo de Sarasate og Robert Schumann. Loks munu Hveragerðislög hljóma í útsetningu Atla Heimis Sveinssonar, með þátttöku tónleikagesti.

Menningarráð Suðurlands er aðalstyrktaraðili tónlistarhátíðarinnar, sem haldin er á vegum menningar- og bókasafnsnefndar Hveragerðisbæjar og Tónlistarfélags Hveragerðis og Ölfuss. Miðasala er á bæjarskrifstofunum, á bókasafninu og við innganginn.
Tríó Reykjavíkur, skipað þeim Peter Máté píanóleikara, Guðnýju Guðmundsdóttur fiðluleikara og Gunnari Kvaran sellóleikara, kemur fram á Björtum sumarnóttum ásamt góðum gestum.