Dagskrá sumardagsins fyrsta

skrifað 21. apr 2008

Sumarkomu er ávallt vel fagnað í Hveragerði enda siður hjá mörgum að heimsækja bæinn þennan dag. Hefð hefur skapast fyrir því að hafa opið hús á Reykjum í Ölfusi á sumardaginn fyrsta þar sem Landbúnaðarháskóli Íslands er með starfsemi sína. Í ár er það starfsfólk á Reykjum sem stendur fyrir hátíðarhöldunum. Almenningi er boðið að heimsækja skólann kl. 10:00 - 18:00 og fjölbreytt dagskrá verður í boði. Í aðalbyggingu skólans fer fram Íslandsmeistarakeppni í blómaskreytingum, ýmis fyrirtæki í græna geiranum kynna starfsemi sína og hægt verður að njóta gróðursins í garðskálanum og bananahúsinu. Í verknámshúsi kynna nokkur fyrirtæki starfsemi sína og pottaplöntuhúsið með hinu glæsilega pottaplöntusafni skólans verður opið. Þá verða kaffiveitingar í matsal skólans og markaðstorg með garðyrkjuafurðir. Skátaleiktæki verða á útisvæðinu. Nám við Landbúnaðarháskóla Íslands verður einnig kynnt í máli og myndum. Kl. 14:00 hefst hátíðardagskrá í garðskálanum. Þar verða afhent Garðyrkjuverðlaunin 2008, Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands afhendir umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar og stofnuð verða Hollvinasamtök íslenskrar garðyrkjumenntunar. Dagurinn er haldinn í samvinnu við Hveragerðisbæ og þar verður einnig í boði fjölbreytt dagskrá þennan dag: Frítt verður í sundlaugina í Laugaskarði og í lauginni verða skipulagðir leikir fyrir alla. Einng verður boðið upp á fjölskylduratleik kl. 11 af Sundlaugarplaninu og kl. 14 spilar hljómsveitin Veðurguðirnir fyrir sundlaugargesti. Í Listasafni Árnesinga verður boðið upp á leiðsögn um safnið og fleira skemmtilegt. Í Eden verður haldið upp á afmæli staðarins með veglegum hátíðarhöldum. Á Heilsustofnun NLFÍ verður 2 fyrir 1 tilboð í hádegismat og frítt fyrir yngri en 12 ára. Einnig verður gjaldfrjálst í sundlaugina. Sýningaríbúð ÍAV verður opin. Eins og sjá má verður nóg að gerast í Hveragerði á sumardaginn fyrsta, 24. apríl. Takið daginn frá og fagnið sumarkomunni á Reykjum og í Hveragerði, bæ grósku og gróðurs.