Konur í hreppsnefnd

skrifað 19. jún 2015
Þórgunnur BjörnsdóttirÞórgunnur Björnsdóttir

Í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi minntist bæjarstjórn á síðasta fundi sínum þeirra kvenna sem fyrstar völdust til forystu í Hveragerði.

Eftirfarandi bókun var borin upp og samþykkt samhljóða:

Bæjarstjórn minnist með hlýhug og virðingu framlags þeirra kvenna sem ruddu brautina í sveitarstjórnarmálum í Hveragerði. Það voru kjarkmiklir dugnaðarforkar sem fyrstar sátu í hreppsnefnd enda þurfti mikinn styrk til að hefja vegferðina inn á hinn hefðbundna vettvang karlanna.

Til heiðurs þeim konum sem vörðuðu veginn og fyrstar urðu til að taka sæti í bæjarstjórn hefur bæjarstjórn tekið saman eftirfarandi upplýsingar:

Fyrsta konan sem kjörin var í hreppsnefnd Hveragerðishrepps var Þórgunnur Björnsdóttir (3.8.1921 - 23.2.2012), kennari við Barna- og Unglingaskólann í Hveragerði. Hún hlaut kosningu í hreppsnefndarkosningum 31.5.1970 og sat sinn fyrsta hreppsnefndarfund 14.6.1970.
Þórgunnur skipaði efsta sæti á framboðslista Alþýðubandalagsins til hreppsnefndarkosninga í Hveragerði 1970. Viðtal við Þórgunni birtist í Þjóðviljanum 26. maí sama ár og þar var hún spurð að því af hverju kona hefði valist í fyrsta sæti listans. Þórgunnur svarar:

„....það er vitlaus þessi árátta að draga fólk í dilka eftir kynjum og aldri. Það er víst annars mín kynslóð, sem á mesta sök á því , en þróunin þyrfti að vera sú, að aðskilnaður kynjanna og aldursflokkanna í störfum og heimilislífi minnkaði. Ég hef það mikið álit á karlmönnum, að ég tel að þeir eigi að hafa meiri dagleg afskipti og fyrirhöfn af börnum sínum. Krakkarnir hefðu gott af því, feðurnir þó enn betra. Atvinnuhættir þyrftu að breytast í það horf, að meira jafnvægi gæti orðið í heimilislífinu, feðurnir meira heima, en mæðurnar þyrftu ekki alla tíma að vera innan veggja heimilisins. Og húsmæðurnar þurfa að komast út í atvinnulífið.“

Þórgunnur, sem alin var upp á Grenivík var að mörgu leyti á undan sinni samtíð er varðar réttindi kvenna. Hún olli til dæmis miklum umræðum á stjórnarfundi útgerðarfélags á Grenivík þegar hún vildi kaupa hlutabréf í fyrirtækinu í eigin nafni en slíkt gerðu ekki konur í þá daga.
Árið 1950 var lagasetning sett á Alþingi um að allar mæður ættu rétt á fæðingarstyrkjagreiðslum en áður voru greiðslurnar tengdar launum maka. Þegar eldri sonur hennar fæddist í lok árs 1951 þurfti afleysingakennara fyrir hana við Barnaskólann á Grenivík og fannst mönnum þar nyrðra sjálfsagt að hún myndi sjálf greiða laun afleysingamanns. Þórunn systir hennar leysti hana af í kennslunni en Þórgunnur vildi ekki borga afleysingamanni sjálf og leitaði réttar síns fyrir dómstólum. Hún vann málaferlin sem tóku nokkuð langan tíma. Árið 1954 náðist síðan mikilvægur áfangi hvað varðar fæðingarorlof kvenna þegar konur sem störfuðu hjá ríkinu fengu þriggja mánaða greitt fæðingarorlof inn í kjarasamninga sína. Það hafði mjög jákvæð áhrif á stöðu annarra kvenna því nokkur verkalýðsfélög fylgdu í kjölfarið. Áður en Þórgunnur hlaut kjör í hreppsnefnd höfðu þrjár aðrar konur tekið sæti á bæjarstjórnarfundum sem varamenn.

Líney Kristinsdóttir var fyrst kvenna til að taka sæti á bæjarstjórnarfundi í Hveragerði. Hún sat sinn fyrsta hreppsnefndarfund 13.5.1964 í veikindaforföllum Teits Eyjólfssonar, oddvita, og sat hún nokkurn fjölda funda út kjörtímabilið (til 1966) sem varamaður. Líney tók virkan þátt í ýmsum félagsmálum, m.a. var hún formaður verkakvennafélags á Hofsósi þar sem hún bjó áður. Líney var forstöðukona Dvalarheimilisins Áss í Hveragerði í tæpa þrjá áratugi. Þar nutu atorka hennar og vinnusemi sín einstaklega vel. Hún var nánast hamhleypa til verka og reyndist ekkert ómögulegt.

Elín Guðjónsdóttir sat sinn fyrsta hreppsnefndarfund 5.4.1968 sem varamaður. Hún sat nokkuð af fundum út kjörtímabilið (til 1970). Elín bjó í Hveragerði mestan hluta ævi sinnar. Elín beitti sér fyrir stofnun Kvenfélags Hveragerðis 1951 og var fyrsti formaður þess. Kvenfélagið beitti sér á mjög víðtækan hátt að mörgum framfaramálum, hélt urmul námskeiða og samkoma, stofnaði vísi að heilsuræktarstöð með ljósalömpum og byggði gæsluvöll og leikskóla fyrir börn.

Sigurlaug Guðmundsdóttir sat sinn fyrsta hreppsnefndarfund 5.4.1968 sem varamaður. Sigurlaug rak ásamt manni sínum Hallgrími Hafsteini Egilssyni, garðyrkjustöðina Grímsstaði í Hveragerði. Árið 1951 var stofnað kvenfélag í plássinu og þar varð Sigurlaug strax driffjöður og kraftmikill þátttakandi. Eitt af verkefnum félagsins var að vinna að velferð barna. Var þá ákveðið að setja á stofn leikskóla. Silla var kosin formaður byggingarnefndar og undir hennar stjórn var byggt hús og þar hefur verið rekinn leikskóli og síðar frístundaskóli síðan.

Eftirfarandi bókun borin upp og samþykkt samhljóða:

Bæjarstjórn mun láta útbúa veggspjöld sem komið verður fyrir á bókasafni og bæjarskrifstofu til að minnast þeirra kvenna sem fyrstar sátu í bæjarstjórn.

Líney Kristinsdóttir 001Sigurlaug GuðmundsdóttirElín Guðjónsdóttir