17. júní í blíðskapar veðri

skrifað 20. júl 2016
Ösp Vilberg og Berglind María. Ösp Vilberg og Berglind María.

17. júní er mikill hátíðisdagur hér í Hveragerði sem og annars staðar á landinu. Hátíðahöldin fóru í ár fram í miklu blíðskaparveðri og naut dagskráin við Sundlaugina Laugaskarð ekki síst góðs af því.

Þó nokkuð sé um liðið frá því 17. júní var haldinn hátíðlegur hér í Hveragerði eins og um land allt þá er rétt að rifja hér upp nokkra hápunkta þess yndislega dags.

Hátíðardagskrá var við Sundlaugina í Laugaskarði þar sem Eyþór H. Ólafsson, forseti bæjarstjórnar flutti ávarp. Ávarp nýstúdents flutti Ösp Vilberg Baldursdóttir og fjallkonan var Berglind María Ólafsdóttir. Að lokinni hefðbundinni dagskrá tók við skemmtidagskrá í umsjón Felix Bergssonar sem jafnframt var kynnir og Heru Bjarkar. Laugargrín var á sínum stað og í þetta sinn tókust á félagar í Crossfit Hengli með Evrópumeistarann Björgvin Karl innanborðs. Að vanda var fjölmennt í brekkunni við Laugaskarð og nutu viðstaddir rjómablíðu og samvista við fjölskyldu, vini og nágranna.

Að vanda skunduðu flestir í kaffihlaðborð í Grunnskólanum en þar er jafnan margt um manninn enda veitingar ávallt með afbrigðum góðar.

Fyrr um morguninn sá Skokkhópur Hamars um dagskrá í Lystigarðinum. Opið hús og þrautabraut var í íþróttahúsinu í umsjón fimleikadeildar þar sem félagar úr Leikfélagi Hveragerðis fluttu brot úr Dýrunum í Hálsaskógi. Síðdegis var boðið uppá barnaball í Skyrgerðinni og um kvöldið voru glæsilegir tónleikar á Skyrgerðinni þar sem Magnús Þór, Þórunn Antonía ásamt Selmu og Regínu héldu uppi fjörinu.

Hér meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá hátíðahöldum dagsins.

Skrúðgangan úr neðra þorpinu. Venju samkvæmt mætast skrúðgöngurnar á Breiðumörk Fjölmenni við LaugskarðEyþór H. Ólafsson, forseti bæjarstjórnarLaugargrín LaugargrínFánalitir á kaffiborðinu Fjölmenni í kaffihlaðborði.