Lýsing á heildarendurskoðun aðalskipulags Hveragerðis 2005-2017 og tillögur að breytingu á aðal- og deiliskipulagi.

skrifað 17. des 2015

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkti þann 12. nóvember 2015 að auglýsa lýsingu á heildarendurskoðun aðalskipulags Hveragerðis 2005-2017 skv. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 4.2.4. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 og eftirfarandi breytingar á aðalskipulagi Hveragerðis 2005-2017 skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og breytingu á deiliskipulagi Kambalands skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010:

Tillaga að breytingu á aðalskipulagi Hveragerðis 2005-2017 sem nær til lóða NLFÍ og lóða við Lækjarbrún.

Breytingartillagan nær til lóða NLFÍ við Grænumörk 10 og Þelamörk 61 og lóða við Lækjarbrún. Svæðið afmarkast mót norðaustri af opnu grænu svæði við Varmá, mót suðaustri af fyrirhuguðu íbúðarsvæði, mót suðvestri af Þelamörk og mót norðvestri af Fagrahvammstúni. Breytingin felst í því að í stað blandaðrar landnotkunar „íbúðarbyggðar” og „samfélagsþjónustu” á öllum reitnum verður landnotkun á lóðinni Grænamörk 10 „samfélagsþjónusta”. Á nýrri lóð, sem stofnuð verður út úr lóðinni Grænamörk 10 og á lóðinni Þelamörk 61 verður „verslun og þjónusta” og á lóðum við Lækjarbrún verður „íbúðarbyggð”.

Tillaga að breytingu á aðalskipulagi Hveragerðis 2005-2017 sem nær til lóða á reit Í14 –Tívolíreit.

Á reitnum sem breytingartillagan nær til eru lóðirnar Austurmörk 20, 22 og 24 (tívolílóð) og Sunnumörk 1 og 3. Breytingin felst í því að í stað blandaðrar landnotkunar „íbúðarbyggðar og miðsvæðis” verður landnotkun á reitnum einungis „miðsvæði”.

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Kambalands í Hveragerði.

Skipulagssvæðið markast til suðurs og vesturs af Suðurlandsvegi, til norðurs af Hamrinum og til austurs af núverandi byggð við Smyrlaheiði, Valsheiði, Kjarrheiði, Borgarhraun og Kambahraun. Tillagan felur í sér breytta legu gatna og íbúðarlóða sem næstar eru Hamrinum og að einbýlishúsalóðir koma í stað fjölbýlishúsalóða.

Skipulagslýsingin og breytingartillögurnar og verða til sýnis á bæjarskrifstofunum að Sunnumörk 2 frá og með mánudeginum 21. desember 2015 til þriðjudagsins 2. febrúar 2016 og hjá Skipulagsstofnun á Laugavegi 166 í Reykjavík Tillögurnar eru einnig til sýnis á heimasíðu Hveragerðisbæjar, www.hveragerdi.is

Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir við ofangreinda skipulagslýsingu og ofangreindar breytingartillögur á aðal- og deiliskipulagi til miðvikudagsins 3. febrúar 2016. Athugasemdir skulu vera skriflegar og skal þeim skilað á bæjarskrifstofur Hveragerðisbæjar, Sunnumörk 2 í Hveragerði eða á netfangið gfb@hveragerdi.is

Skipulagsfulltrúi Hveragerðisbæjar