Fjölbreytt dagskrá á sumardaginn fyrsta

Sumri fagnað

skrifað 17. apr 2012
byrjar 19. apr 2012
 
sumarsumar

Ágætu íbúar og gestir !
Sumri er ávallt fagnað með myndarlegum hætti hér á landi.

Sumardagurinn fyrsti er ávallt hátíðsdagur hvort sem þann dag snjóar, rignir eða sólin skín. Hér í Hveragerði höfum við ávallt tekið sumrinu fagnandi og boðið gesti velkomna til bæjarins til að njóta hér dagskrár sem Landbúnaðarháskólinn að Reykjum á stærstan þátt í. Þar stendur nú gróður í mestum blóma og hvergi er betra að gleðjast yfir sumarkomunni en einmitt í vöggu garðyrkjunnar á Íslandi. Starfsmenn og nemendur skólans eiga heiður skilinn fyrir dugnað og hugmyndaauðgi við framkvæmdina alla.

Ég vil nota þetta tækifæri til að hvetja íbúa og gesti til að njóta þess sem í boði er í bæjarfélaginu í dag. Fyrir utan hátíðahöld vegna sumarkomu höldum við Hvergerðingar uppá 20 ára afmæli Íþróttafélagsins Hamars með hátíðahöldum í íþróttahúsi bæjarins, þangað eru allir boðnir velkomnir.

Einnig er rétt að minna á þá dagskrárliði sem framundan eru næstu mánuði.
Helgina 22. - 24. júní verður garðyrkju- og blómasýningin "Blóm í bæ" haldin hér í Hveragerði. Sýningin hefur verið haldin undanfarin sumur og hefur hún notið fádæma vinsælda. Í ár verður sýningin með líflegra móti en þemað er „sirkus“. Öll fjölskyldan ætti að geta fundið fjölmargt við sitt hæfi.

Dagana 17. - 19. ágúst verður síðan bæjarhátíðin "Blómstrandi dagar" haldin hátíðleg með tilheyrandi fjöri út um allan bæ. Ýmsir aðrir viðburðir verða í bæjarfélaginu þó þessa beri óneitanlega hæst en áhugasamir eru hvattir til að kynna sér það sem í boði er á heimasíðu bæjarins http://www.hveragerdi.is./

Með þessum orðum óska ég íbúum og gestum Hveragerðisbæjar gleðilegs sumars.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri Hveragerðisbæjar