Bæjarhátíðin Blómstrandi dagar

skrifað 15. júl 2016
Blómstrandi dagar 2016Blómstrandi dagar 2016

Undirbúningur fyrir bæjarhátíðina, Blómstrandi daga, er á lokametrunum en hún verður 11. - 14. ágúst nk. Fjölbreytt skemmtun verður þessa daga fyrir alla fjölskylduna.

Öllum er boðið á leiksýningu

Það verður sirkusskóli, bubble-bolti, sundlaugarpartý, veltibíll, PokémonGo-veiði, crossfit leikar, leikhópurinn Lotta sýnir og margt fleira. Einnig stíga á stokk tónlistarmennirnir Jón Ólafsson, Gunnar Þórðarson, Diddú og Berþór, Hljómlistarfélagið, Ingó Veðurguð, Bryndís Ásmunds og fleiri. Opnar vinnustofur, áhugaverðar sýningar, markaðir, söguferðir og margt fleira verður áberandi þessa daga.

PokémonGo-veiði er spennandi nýjung

Spennandi nýjung í ár er PokémonGo-veiði í Lystigarðinum en það er hópveiði fyrir Pokémon spilara. Allir koma saman og kveikja á leiknum á sama tíma. Við fyllum Lystigarðinn af Pokémonum. Kjörið tækifæri fyrir nýja spilara að byrja. Dúndrandi stuð og tónlist.

Bæjarbúar hafa verið hugmyndaríkir í skreytingum

Undanfarin ár hafa einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir kappkostað að gera hátíðina sem veglegasta og lagt sitt af mörkum. Að sjálfsögðu toppum við okkur á hverju ári og eru fjölmargir sem bjóða upp á allskyns tilboð, sýningar, tónlistaratriði o.fl. Þið megið gjarnan senda upplýsingar til jmh@hveragerdi.is varðandi uppákomur.

Bæjarbúar leggja hátíðinni lið með því að skreyta sitt hverfi og sinn garð. Margir hafa opnað heimili sín og boðið gesti velkomna til að skoða fallega garða, myndlist, hönnun o.fl. Ingó leiðir brekkusöng Einnig er gaman að sjá skreytta bæjarbúa í brekkunni þegar brekkusöngurinn ómar. Í ár mun Ingó Veðurguð stýra brekkusöng og verður stórglæsileg flugeldasýning því bærinn fagnar 70 ára afmæli í ár.

Litir hverfanna verða þeir sömu og undanfarin ár.

  • Bleika og græna hverfið
  • Rauða og gula hverfið
  • Bláa og appelsínugula hverfið

Hverfisskiptingin

Verðlaun verða veitt fyrir skreytingarnar.

Skemmtum okkur saman í fallegu umhverfi án áfengis

Við bjóðum gesti velkomna í bæinn