Jól alla daga – í GÍH

skrifað 10. des 2015
Afhending styrksAfhending styrks

Desember er gjarnan sá tími ársins, öðrum fremur, sem við viljum láta gott af okkur leiða, dreifa kærleika og gleði og rétta þeim hjálparhönd sem minna mega sín.
Í GÍH, má segja að við séum í jólaskapi allan desember. Við byrjuðum mánuðinn með þemavinnu þar sem allir nemendur og starfsmenn skólans lögðu hönd á plóg. Vinnunni lauk svo með stóreflis góðgerðadegi á föstudaginn var. Þar seldu nemendur afrakstur vinnunnar, starfræktu kaffihús og nytjamarkað, sungu og léku og margt fleira. Við vorum svo lánsöm að fá fjöldan allan af vinum og velunnurum í heimsókn þennan dag og niðurstaðan varð sú að samtals söfnuðust 480.000 kr. til góðgerðarmála. Fyrirfram höfðu nemendur okkar valið Amnesty International, sem samstarfsaðila dagsins og því rennur þessi fjárhæð til starfsemi þeirra. Í dag, miðvikudaginn 9. des, fengum við svo aðgerðastjóra Amnesty International, Magnús S. Guðmundsson, í heimsókn í skólann okkar. Hann var með flotta fræðslu fyrir unglingastigið, um starfsemi Amnesty og að henni lokinni safnaðist allur skólinn saman og nemendaráðið afhenti Magnúsi styrkinn. Frábær dagur í dag og samfélagið okkar má vera stolt af ungmennahópnum sínum sem lætur verkin tala og sýnir vináttu og virðingu fyrir mannréttindum, með þessum fallega hætti. Fh. starfsfólks GÍH Fanney Ásgeirsdóttir, skólastjóri

Góðgerðardagur í GíH