Verið viðbúin ofsaveðri

skrifað 07. des 2015
Morgunsól í nóvember 2015Morgunsól í nóvember 2015

Kæru bæjarbúar og nágrannar. Eins og fram hefur komið í fréttum er búist við austan ofsaveðri í dag, fram á þriðjudag, á öllu landinu með snjókomu og byl. Veðrið skellur fyrst á undir jöklum á Suðurlandi en um kaffileitið hér.

Það er mikilvægt að við tökum viðvaranir alvarlega. Hafið ekkert lauslegt í görðum, bræðið klaka yfir niðurföllum úti og hreinsið þakrennur því að hitastigið er mun hærra en reiknað var með og eru miklar líkur á rigningu hér allra syðst.

Skólarnir eru opnir en náið í börnin ykkar tímanlega þannig að fjölskyldan sé komin heim áður en veðurofsinn byrjar. Íþróttafélagið Hamar hefur tekið ákvörðun um að fella niður æfingar hjá öllum deildum í dag. Einnig verður leik Hamars og Njarðvíkur í bikarkeppni KKÍ, sem átti að vera í kvöld í íþróttahúsinu, frestað.

Mikilvægt er að taka stöðuna í fyrramálið og fara ekki af stað fyrr en veðrið er gengið niður.