Senn koma jólin

skrifað 07. nóv 2016
Páll Óskar og Monika með jólatónleika 1. desemberPáll Óskar og Monika með jólatónleika 1. desember

Undirbúningur fyrir jólahátíðina er hafinn. Starfsmenn áhaldahúss eru í óðaönn að setja upp jólaseríur og jólaljósin í bænum eru farin að ljóma.

Jólahátíðin „Jól í bæ“ er samstarfsverkefni allra sem í bænum búa og leggjum við metnað í að gera bæinn okkar sem hátíðlegastan með jólaljósum og skreytingum. Hið árlega jóladagatal Hvergerðinga, Jól í bæ, verður gefið út um miðjan nóvember en þar verða upplýsingar um alla þá viðburði sem verða í boði í kringum jólahátíðina. Þeir sem verða með uppákomur frá 27. nóvember – 6. janúar eru beðnir að koma upplýsingum á framfæri til menningar- og frístundafulltrúa bæjarins jmh@hveragerdi.is fyrir 11. nóvember.

Jól í bæ

hefst fyrsta sunnudag í aðventu þann 27. nóvember en þá verður kveikt á stóra jólatrénu í Smágörðunum. Skátafélagið Strókur býður upp á heitt kakó við skátaheimilið og munu jólasveinar úr Reykjafjalli fá bæjarleyfi hjá Grýlu til að skemmta ungum sem öldnum. Um kvöldið verður aðventukvöld í Hveragerðiskirkju.

Jólatónleikar með Páli Óskari og Moniku

Þann 1. desember verða jólahátíðartónleikar í Hveragerðiskirkju með Páli Óskari söngvara og Moniku Abendroth hörpuleikara. Á efnisskránni eru ýmis jólalög sem Palli og Monika hafa spilað undanfarin áratug, auk þekktustu popplaga Palla. Hveragerðisbær hefur verið að halda upp á 70 ára afmæli bæjarins og er verið að loka afmælisárinu með þessum glæsilegu hátíðartónleikum. Forsala verður á aðgöngumiðum frá 28. nóvember. Sjá nánar undir tilkynningum á heimasíðunni þegar nær dregur http://www.hveragerdi.is/

Jólagluggar

Undanfarin ár hafa fyrirtæki og stofnanir skreytt sérstaka dagatalsglugga og er opnaður einn gluggi á dag í desember fram að jólum. Hver gluggi er skreyttur með ákveðnu þema tengt jólum og er jólabók við hvern glugga sem útskýrir táknið. Fjölmargir hafa lagt leið sína um bæinn að skoða gluggana og tekið þátt í jólaratleiknum. Það var Guðrún Tryggvadóttir hjá Náttúran.is sem er hugmyndasmiður jólabókanna og hafði hún veg og vanda að hönnun táknanna og textanum sem fylgja hverju tákni. Fleiri viðburðir tengdir jólum verða kynntir síðar, sjá http://hveragerdi.is/

Eigið ánægjulegar stundir við undirbúning jólanna

Jóhanna M. Hjartardóttir menningar- og frístundafulltrúi

Jólagluggar verða skreyttirJólasveinar koma í heimsókn þegar kveikt verður á jólatréi bæjarins