Bæjarhátíðin Blómstrandi dagar

skrifað 06. ágú 2013
Bæjarhátíðin Blómstrandi dagar

Það verður sannkölluð menningar- og heilsuveisla dagana 15. – 18. ágúst í Hveragerði. Fjölbreytt afþreying verður alla dagana og líf og fjör í bænum. Markaðsstemmning verður áberandi því margir íbúar verða með heimasölur þessa daga og þjónustufyrirtæki með plöntu-, grænmetis- og bókamarkað og önnur með skemmtidagskrá og glæsileg tilboð.

Á laugardeginum verður Ísdagurinn hjá Kjörís en þá er öllum Íslendingum boðið upp á ís í miklum mæli og koma m.a. Ingó, Slabbi, Skvetta, Ísleifur o.fl. í heimsókn.

Börnin eru ávallt í fyrirrúmi á hátíðinni og er margt skemmtilegt í boði fyrir þau eins og leiksýning Lottuhópsins, Sirkus Íslands, töframaður, veltibíllinn, leiktæki, hoppukastalar og tónlistarskemmtun.

Frábær tónlistaratriði

Tónlistin skipar stóran sess á hátíðinni og mun landslið tónlistarmanna koma fram á hátíðinni bæði heimamenn og gestir. Má nefna hljómsveitirnar Buff, White Signal, Formalín, Krafthamar, Famina Futura, Treisí og Skuggabandið. Jazzsveit Bryndísar Ásmunds, Hundur í óskilum og GMR bandið (Gylfi, Megas og Rúnar), Ingó, Regína Ósk, Einar Örn, Berglind María, Spilandi flakkarar og fleiri. Sólmundur Hólm sér um brekkusönginn í ár og verður flugeldasýning hjálparsveitarinnar glæsileg eins og alltaf.

Hugum að heilsunni

Fjölbreytt dagskrá af heilsutengdum viðburðum verður á hátíðinni en boðið verður upp á gönguferðir, ratleiki, vatns-þrautabraut, strandblak, crossfit, froðubolta, og margt margt fleira fyrir alla fjölskylduna. Brekkuhlaupin hafa skipað sér sess, en þau eru hlaupin í þremur brekkum bæjarins, Laugaskarðs-, Gos(s)a- og Laufskógarbrekku. Einnig verður hægt að rækta líkama og sál í jógaæfingum.

Áhugaverðar sýningar

Ýmsar sýningar verða þessa daga m.a. í Listasafni Árnesinga, Bókasafninu, Sunnumörk og Þorlákssetri, húsi eldri borgara. Í Verslunarmiðstöðinni Sunnumörk eru tvær sýningar uppi allt árið um kring. Annarsvegar Skjálftinn 2008 og hinsvegar Listamannabærinn Hveragerði. Listvinafélagið verður í Varmahlíðarhúsinu með opið hús og býður gestum í orðaleik. Örvar Árdal mun myndskreyta uppistandandi veggi í Eden. Félagar úr Fornbílaklúbbnum munu leggja glæsikerrum sínum á Edenplanið á laugardeginum. Hundafélagið REX verður með kynningu og sýningu og einnig verða talandi og syngjandi páfagaukar til sýnis í Hveragarðinum. Einnig sýnir Arnþór Ævarsson ljósmyndir frá Reykjadal og nágrenni í Dalakaffi.

Góða skemmtun og eru gestir velkomnir