Listamannahúsið Varmahlíð

skrifað 02. nóv 2012
Listamannahúsið Varmahlíð stendur við aðalgötu bæjarins við hliðina á Fossflötinni.Listamannahúsið Varmahlíð stendur við aðalgötu bæjarins við hliðina á Fossflötinni.

Hveragerðisbær hefur til margra ára boðið listamönnum að dvelja í, einu af elstu íbúðarhúsum bæjarins, Varmahlíð. Húsinu er úthlutað einn mánuð í senn listamönnum að kostnaðarlausu. Menningar-, íþrótta- og frístundanefnd fer fram á að þeir sem hljóta úthlutun láti gott af sér leiða í bænum og kynni list sína og/eða semji við menningar- og frístundafulltrúa um á hvern hátt listamaðurinn komi fram í bænum.

Árið 2012 var listamannahúsið þétt setið og komu listamenn fram við ýmis tækifæri í bænum. Dæmi um dvalargesti í ár voru tónlistarmennirnir Jónas Sigurðsson sem lék og söng á sundlaugarbakkanum Laugaskarði á sumardaginn fyrsta og heimsótti skólabörn, Heiða Eiríks og Dr. Gunni sem komu fram á Blómstrandi dögum. Rithöfundurinn Þórarinn Eldjárn dvaldi nú í október og heimsótti eldri borgara og börn grunnskólans. Erlendir listamenn hafa einnig dvalið í húsinu í ár en það voru myndlistamennirnir Kenneth Steven og Baniprosonno sem er okkur orðinn kunnur en hann fagnaði áttræðisafmæli sínu hér á landi nú í ágúst. Hann hefur haldið bæði sýningar og listasmiðjur í Listasafni Árnesinga. Nú í nóvember mun Laura Luck myndlistarkona dvelja í húsinu og í desember kemur rithöfundurinn Huldar Breiðfjörð.

Nú hefur verið auglýst eftir umsóknum frá gestalistamönnum. Óskað er eftir því að í skriflegum umsóknum, sem senda á til menningar- og frístundafulltrúa Hveragerðisbæjar, Sunnumörk 2, 810 Hveragerði, komi fram æskilegt dvalartímabil og að hverju listamaðurinn hyggst vinna meðan á dvölinni stendur.

Úthlutun dvalartímabila mun fara fram í desember og mun vera úthlutað árið 2013.

Jónas Sigurðsson tónlistarmaðurBaniprosonno myndlistarmaðurÞórarinn Eldjárn rithöfundur