Góðgerðadagur í GÍH

skrifað 01. des 2015
Yngsta stigYngsta stig

Föstudagurinn 4. desember er góðgerðadagur í Grunnskólanum í Hveragerði. Tildrög hans eru hugmynd sem vaknaði meðal starfsmanna skólans að þetta árið yrði þemað ekki bara uppbrot í skólastarfinu, heldur myndum við láta gott af okkur leiða á einhvern hátt.
Síðasta daginn höldum við því uppskeruhátíð – góðgerðadag – þar sem bæjarbúum og öllum öðrum sem vilja heimsækja okkur, gefst kostur á að skoða afrakstur vinnunnar og styðja við málefni dagsins á einhvern hátt.

Margt verður í boði fyrir gesti og gangandi á góðgerðadeginum. Dagskráin hefst kl. 9:00 með gangasöng í anddyri skólans og í beinu framhaldi opnar glæsilegt kaffihús í mötuneytinu þar sem hægt er að kaupa sér veitingar á vægu verði. Þá opnar líka markaðstorg nemenda, þar sem þeir verða með verk sín til sölu og sýnis.

Víða um skólann má svo sjá tónlistar- og leikatriði, þar verður einnig að finna tombólu og margt fleira skemmtilegt. Kaffihúsið er opið til kl. 11:30 og markaðstorgið til kl. 12:00.

Þegar kom að því að velja málefni til að styrkja vandaðist málið aðeins – enda af nógu að taka. Við völdum að setja þessa ákvörðun í hendur nemenda. Í öllum bekkjum fór því fram umræða um hvaða tillögur nemendur hefðu og svo fékk nemendaráðið okkar það vandasama verkefni að velja hvert styrkur okkar rynni. Niðurstaðan varð sú að ágóði dagsins skyldi renna til Amnesty International. Aðspurðir sögðu meðlimir ráðsins að það væri m.a. vegna þess að Amnesty berðist gegn því að börnum væri misboðið t.d. með því að ungar stúlkur væru þvingaðar í hjónabönd og gegn mannréttindabrotum um allan heim. Þeim fannst þetta mjög mikilvægt starf og það skipti mjög miklu máli að standa vörð um mannréttindi, bæði barna og fullorðinna hvarvetna. Það gleður mig innilega að sjá að þessi hópur hefur tileinkað sér svona hnattræna sýn og að unga fólkið okkar skuli bera slíka virðingu fyrir mannréttindum. Það er í raun einkar viðeigandi þar sem virðing og vinátta eru einmitt tvö af lífsgildum skólans okkar.

Því held ég að sé við hæfi að enda þennan pistil á 1.grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna:

„Hver maður er borinn frjáls og jafn öðrum að virðingu og réttindum. Menn eru gæddir vitsmunum og samvisku, og ber þeim að breyta bróðurlega hverjum við annan.“

Sjáumst í skólanum

Fanney Ásgeirsdóttir, skólastjóri

Yngsta stig