Stökkgryfja og trampólín keypt

skrifað 03. maí 2018
Stökkgryfja færanleg

Bæjarstjórn samþykkti að styrkja Fimleikadeild Hamars um 3 mkr á fundi sínum þann 12. apríl. Er upphæðin ætluð til kaupa á færanlegri stökkgryfju, trampólíni og trampólín braut. Kom fram í erindi stjórnar fimleikadeildar að þessi tæki væru afar mikilvæg eigi starf fimleikadeildar að geta verið samkeppnishæft við önnur fimleikafélög. Gert er ráð fyrir að búnaðurinn verði staðsettur í Hamarshöllinni en þar er fimleikadeildin með æfingar sínar. Kostnaður við kaupin eru 3 mkr.

Í erindinu kom fram að deildin aldrei verið jafn fjölmenn og nú. Iðkendafjöldi ár frá ári hefur aukist til muna sem kallar á aukinn búnað, ný og betri tæki jafnt sem endurnýjun. Starfsemi deildarinnar hefur verið alfarið flutt í Hamarshöllina. Að mati deildarinnar var það mikil bylting að þurfa ekki að taka saman öll áhöldin sem eru mjög þung, plássfrek og taka langan tíma að setja upp og taka saman. Iðkendur þurftu að ganga frá og setja upp áhöld sem var inn í æfingatímum þeirra og því nýttist æfingatíminn ekki vel. "Með þessum flutningum fengum við stærra húsnæði, meira pláss og minni tími fer í að flytja áhöld. Þetta var gríðarleg bylting sem gefur að skilja" segir í erindi fimleikadeildar.

Vonandi verða hin nýju tæki komin í sumar svo þau megi nýtast iðkendum strax við upphaf nýs tímabils næsta haust.