Plastlaus september

skrifað 04. sep 2018
Plastlaus september

Nú er kominn september og haustið fer að minna á sig. Þá er rétti tíminn til að hugsa um umhverfið en nú hefur átakinu „plastlaus september“ verið ýtt úr vör í annað sinn.

Plast er samheiti yfir fjölmörg efni sem a mestu eru byggð á kolefni og vetni eða svokallaðar fjölliður. Að langmestu leiti eru þessi efni unnin úr olíu. Þó frumstæðar gerðir plastefna hafi verið fundin upp fyrir meira en öld síðan er það ekki fyrr en á síðari hluta 20 aldar sem það ryður sér til rúms fyrir alvöru. Nú er svo komið að um 330 milljón tonn eru framleidd á ári í heiminum. Það eru tæplega þúsund tonn á hvert mannsbarn á Íslandi!

Framleiðsla á plasti í heiminum 1950-2016

Í dag er plast notað í nánast öllu sem viðkemur okkar daglega lífi, allt frá matarpakkningum yfir í flugvélar. Plastið er ódýrt, létt, slitsterkt og síðast en ekki síst afar endingagott. Þessir kostir eru líka ókostir plastsins því ef það kemst út í náttúruna getur það tekiða aldir að brotna niður og valdið ómældu tjóni á þeim tíma. Það hefur einmitt það sem hefur gerst í stórum stíl og sjást afleiðingar þess víða. Óvarleg meðhöndlun plasts hefur valdið því að talsvert af því plasti sem framleitt hefur verið hefur endað í umhverfinu og þar af hefur mikið endað í sjónum. Þar brotnar plastið niður vegna útfjólublárrar geislunar og núnings og verður að svokölluðu örplasti sem finnur sér greiða leið inn í lífkeðjuna frá frumstæðustu lífverum á botninum og upp í topp keðjunnar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

skjaldbaka sem hefur flækst í plasti

Það er á ábyrgð okkar allra að forða því að plast lendi í umhverfinu og valdi þar skaða. Átakið plastlaus september er árvekniátak sem miðar að því að vekja fólk til umhugsunar um ofgnótt og skaðsemi plasts í umhverfinu og benda á leiðir til að draga úr notkun þess því það er langárangursríkasta leiðin til að koma í veg fyrir skaða af þess völdum.

Það er því miður óhjákvæmilegt að eitthvað plast falli til hjá okkur en þá er mikilvægt að koma því til endurvinnslu. Við hér í Hveragerði höfum fyrir allnokkru tekið upp þriggja tunnu kerfi þar sem meðal annars er hægt að flokka plast. Það eru því hæg heimatökin að koma plast sem fellur til hjá okkur í endurvinnsluferli.

Allir eru hvattir til að taka þátt í átakinu plastlaus september og reyna þannig að minnka neikvæð áhrif okkar á umhverfið. Vonandi mun þátttaka í verkefninu einnig verða til þess að við minnkum notkun á plasti til frambúðar. Hægt er að skoða heimasíðu verkefnisins á hlekknum hér að neðan. Þar eru einnig að finna nytsamlegar upplýsingar um hvernig má draga úr plastnotkun.

https://plastlausseptember.is/

Umhverfisfulltrúi