Hveragerði í hópi bestu sveitarfélaga

skrifað 11. feb 2018
Gallup 2017

Hveragerðisbær er langt yfir meðaltali sveitarfélaga í nær öllum þáttum sem spurt var um og trónir á toppnum hvað varðar málefni eldri borgara, skipulagsmál, gæði umhverfis og þjónustu við fatlað fólk svo dæmi sé tekið.


Hvergerðingar geta glaðst yfir niðurstöðu viðhorfskönnunar Gallup fyrir árið 2017 þar sem ánægja bæjarbúa stærstu sveitarfélaga landsins er könnuð hvað varðar ýmsa þætti í þjónustu sveitarfélaga.

Fyrir Hveragerðisbæ er niðurstaða könnunarinnar staðfesting á því góða starfi sem innt er af hendi af starfsmönnum bæjarfélagsins sem skilað hefur því að Hvergerðingar eru meðal ánægðustu íbúa landsins í flestum þjónustuþáttum. Skipar sveitarfélagið sér þar í hóp efstu sveitarfélaga ítrekað. Sú var einnig reyndin árið 2016 en nú er gert enn betur og í könnuninni árið 2017 mælist ánægja bæjarbúa meiri eða jöfn síðustu niðurstöðu í flestum flokkum.

Hveragerðisbær er langt yfir meðaltali sveitarfélaga í nær öllum þáttum sem spurt var um og trónir á toppnum hvað varðar málefni eldri borgara, skipulagsmál, gæði umhverfis og þjónustu við fatlað fólk svo dæmi sé tekið. 90% aðspurðra eru mjög eða frekar ánægð með sveitarfélagið sem stað til að búa á. 7% hvorki né og einungis 3% er óánægt með sveitarfélagið sitt.

Niðurstöður nýttar við stefnumótun

Bæjarstjórn lítur á könnunina sem mikilvægt hjálpartæki þegar kemur að forgangsröðun verkefna og mun taka tillit til þeirra upplýsinga og vísbendinga sem þarna koma fram. Í könnun ársins 2016 mátti sjá vissa óánægju hvað varðaði þjónustu við leikskólabörn enda voru biðlistar eftir leikskólaplássi þá nokkuð langir. Brugðist var við því með byggingu nýs glæsilegs leikskóla sem einnig hafði í för með sér gjörbreytingu á aðstöðu frístundaskóla og félagsmiðstöðvar unglinganna. Þessi aðgerð virðist hafa skilað góðum árangri því nú mælist ánægja með þjónustu leikskóla eins og best gerist en Hveragerði er í öðru sæti sveitarfélaga hvað varðar þjónustu leikskólanna og er í sama sæti hvað varðar þjónustu við barnafjölskyldur.

Þegar spurt er um það hversu ánægðir eða óánægðir íbúar eru með þjónustu sveitarfélagsins á heildina litið þá er niðurstaðan sú að Hveragerði er með hæstu einkunn, í hópi þeirra þriggja efstu.

Góðir starfsmenn - lykill að árangri

Bæjarstjórn lítur á könnunina sem mikilvægt mælitæki sem hún hefur notað til að bæta þjónustu við íbúa og er ánægjulegt að sjá að slík vinna ber árangur eins og sú staðreynd sýnir að íbúar telja Hveragerðisbæ í hópi albestu sveitarfélaga landsins. En þó að bæjarstjórn marki stefnuna þá eru það starfsmenn og stjórnendur sem eru í daglegum samskiptum við bæjarbúa. Fá starfsmenn afar góða einkunn fyrir að leysa vel úr erindum og enn og aftur skipa starfsmenn hóp þeirra bestu hvað það varðar. Bæjarstjórn nýtti tækifærið á bæjarstjórnarfundi nýverið og færði starfsmönnum þakkir fyrir að sinna störfum sínum af alúð og samviskusemi sem aftur skilar sér til notenda í afbragðs góðri þjónustu.

Það er ljóst að könnun sem þessi er gott mælitæki sem nýtast mun bæjarstjórn vel við framtíðarstefnumörkun sem miðar að því að bæta í sífellu þjónustu við bæjarbúa.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri

(Smellið á myndina til að stækka)