Gámasvæðið

skrifað 12. jan 2018
byrjar 11. jan 2018
 

Af gámasvæði, endurvinnslu og umhverfi

Að loknum jólum og áramótum er rétti tíminn til að hugsa um umhverfið. Hér í Hveragerði reynum við stöðugt að vera í fremstu röð þegar kemur að umhverfismálum og hefur náðst mikill árangur í þeim málum á liðnum árum. Á síðasta ári var haldið áfram á þeirri braut og var til dæmis farið að tæma allar tunnur heimila á þriggja vikna fresti sem hefur haft jákvæð áhrif á flokkun þar sem tunnur verða sjaldnar yfirfullar. Hefur þessu nýja fyrirkomulagi verið afar vel tekið af íbúum bæjarins.

Hveragerði er enn í fremstu röð meðal íslenskra sveitarfélaga þegar kemur að hreinsun fráveituvatns enda rekum við eina fullkomnustu skolphreinsistöð landsins. Enn er þó hægt að gera betur í þeim málum og ber þá helst að nefna að unnið er að því að seyra verði ekki urðuð í framtíðinni heldur nýtt til uppgræðslu á örfoka landi. Einnig er orðið fyrirsjáanlegt að huga þarf að stækkun stöðvarinnar með vaxandi íbúafjölda og meiri umsvifum í bænum. Rekstur gámasvæðisins hefur gengið vel og það fyrirkomulag að íbúar hafi möguleika á að skila sorpi gjaldfrjálst með því að skila miða hefur mælst vel fyrir. Þó er ljóst að miðað við skil á útgefnum miðum er almennt ekki þörf á 12 miðum fyrir venjuleg heimili. Því miður hafa verið nokkur brögð að því að fyrirtæki reyni að nota útgefna miða til að losa sig við sinn úrgang sem ekki er leyfilegt.

Í ljósi þessa hefur bæjarstjórn ákveðið að fækka miðum sem hvert heimili fær úthlutað í 6 á árinu 2018. Miða vegna ársins 2018 má nú nálgast á bókasafninu.

Það er einnig vert að minnast á að gler á alls ekki heima í grænu flokkunartunnunni og í raun ekki heldur í gráu tunnunni. Öllu gleri má skila íbúum að kostnaðarlausu í jarðvegsgáminn á gámasvæðinu. Vegna þessa er gott að geta þess að nú er unnið að því að koma upp hentugu íláti miðsvæðis þar sem hægt er að skila gleri en bæjarstjórn ákvað samhliða fjárhagsáætlun að slíkt fyrirkomulag yrði prófað.

Með óskum um gott og gleðilegt nýár og þökkum fyrir gott samstarf á árinu sem nú er liðið.

Höskuldur Þorbjarnarson Umhverfisfulltrúi.