80 ára afmæli sundlaugarinnar í dag

skrifað 06. jún 2018
Laugarstæðið er einstaklega fallegt, skjólsælt og vel valið

Í dag eru 80 ár síðan vatni var fyrst hleypt í Sundlaugina Laugaskarði. Við gerum okkur glaðan dag og bjóðum gesti velkomna. Sjá dagskrá sem hefst kl. 17.


Upphafið

Ungmennafélag Ölfusinga stofnað 1935

Stofnfundur Ungmennafélags Ölfusinga var haldinn 5. janúar 1935 í hinum nýja kvennaskóla Árnýjar Filippusdóttir að Hverabökkum. Stofnfélagar voru 36 og fyrsta stjórn félagsins var skipuð Sveini Steindórssyni, Helga Jóhannssyni og Ólafi Þorlákssyni. Bjarni Bjarnason skólastjóri á Laugarvatni mætti á fundinn og ræddi um tilgang og tilhögun ungmennafélaganna.

Bygging sundlaugar var í upphafi eitt af aðalverkefnum félagsins. Ótæmandi heitar laugar áttu að sjá þessu mannvirki fyrir nægri upphitun. Menn voru ekki á eitt sáttir um stærð laugarinnar og staðarval en eftirtaldir menn voru kosnir í nefnd sem átti að hrinda hugmyndinni í framkvæmd: Jóhann Sigurðsson frá Núpum, Búi Þorvaldsson úr Hveragerði, Ólafur Þorláksson frá Hrauni, Árni Einarsson frá Þóroddstöðum og Sveinn Steindórsson úr Hveragerði. Félagið hóf fjársöfnun til styrktar málefninu m.a. með happdrætti. Ingimar Sigurðsson útvegaði vinningana en þeir voru: bílferð til Akureyrar og 50 kr. úttekt í gróðrarstöð hans í Fagrahvammi.

Lárus J. Rist sundkennari

Árið 1936 kom Lárus J. Rist sundkennari frá Akureyri til Hveragerðis. Hann hafði stundað nám við lýðháskólann Askov í Danmörku og lokið prófi frá fimleikaskólanum í Kaupmannahöfn árið 1906. Lárus hafði um árabil unnið við sundkennslu á Akureyri og 6. janúar 1907 vann hann það afrek að synda yfir Eyjafjörð. Lárus gekk í Ungmennafélag Ölfusinga og varð fljótlega mikilvirkur í félagsstarfinu. Hann var stórhuga og setti sér það markmið að í Hveragerði skyldi byggð vegleg sundlaug, stærsta sundlaug landsins. Lárus tók forystu í sundlaugarnefnd og valdi sundlauginni stað í gilinu fyrir neðan gróðurskálana á Reykjum. Þar seytlaði volgur lækur milli grasigróinna bakka og hjálpaði hann til að grafið var fyrir lauginni á þessum stað.

Í ágústmánuði árið 1959 var afhjúpaður minnisvarði um Lárus J. Rist í Laugaskarði í tilefni áttræðisafmæli hans. Þetta var brjóstmynd gerð af listamanninum Ríkharði Jónssyni.
Það var hátíðarblær yfir staðnum þennan dag og hundrað börn og unglingar steyptu sér til sunds í laugina. Jóhannes úr Kötlum flutti frumsamið kvæði að fornum hætti. Gunnar Benediktsson rithöfundur las kvæði Matthíasar Jochumssonar í tilefni af Eyjarfjarðarsundi Lárusar árið 1907.
Stefán Guðmundsson hreppstjóri sagði í ræðu sinni: „Brjóstmynd þessi á ekki aðeins að vera óbrotgjarn minnisvarði um frumherjann, heldur einnig bending til æskufólks á óleyst verkefni og síðast en ekki síst á hann að minna á hve vilji, vit og atorka einstaklingsins fær miklu til leiðar komið ef vasklega er unnið að góðum málefnum.”

Velvilji nærliggjandi sveitarfélaga

Auk Ölfushrepps sýndu nærliggjandi sveitarfélög velvild sína til sundlaugarbyggingarinnar með því að leggja fram fjármagn. Eyrarbakkahreppur lagði fram 500 kr. sem var mikið fé í þá daga. Ungmennafélagið þar og alþýða manna á Eyrarbakka sýndi áhuga sinn með því að senda 20 – 30 vaska verkamenn til Hveragerðis svo ekki var hjá því komist að hefjast handa. Í þessum hópi voru m.a. fangar frá Vinnuhælinu á Litla – Hrauni. Ungmennafélagar og íbúar í Hveragerði og Ölfusi unnu mikið starf við bygginguna í sjálfboðavinnu. Þá voru hinar stórvirku vinnuvélar ekki komnar til sögunnar og mest unnið með handaflinu einu saman.

Á þessum tíma voru fá hús í Hveragerði. Byggð hófst ekki þar fyrr en um 1929 þegar Sigurður Sigurðarson búnaðarmálastjóri nam þar land og reisti gróðrarstöð. Smám saman fóru fjölskyldur úr Reykjavík að koma sér upp ódýrum bústöðum til að dvelja í yfir sumarmánuðina og aðrir bjuggu í tjöldum. Fólkið lifði þarna fábrotnu lífi, sauð mat og bakaði við jarðhitann.

Jónas Jónson frá Hriflu hafði í ráðherratíð sinni komið því til leiðar að ríkið keypti Reykjatorfuna og var Garðyrkjuskóli ríkisins stofnaður þar árið 1939. Með tilliti til þessa nýstofnaða skóla og hinna ýmsu skólahéraða sem líkleg voru til að hafa not af sundlauginni, leitaði Ungmennafélagið samstarfs við ríkisstjórnina um skipan þriggja manna nefndar til að gera tillögur um yfirráð laugarinnar og setja reglur um rekstur hennar. Pálmi Hannesson rektor, Bjarni Bjarnason frá Laugarvatni og Ingimar Sigurðsson frá Fagrahvammi voru kosnir í nefndina.

Vatni hleypt í laugina 6. júní árið 1938

Sundlaugin var 12 x 25 m þegar vatni var hleypt í hana í fyrsta sinn 6. júní árið 1938. Menn héldu áfram uppbyggingu og árið 1945 var komin 50 m löng sundlaug með steyptum botni og var þá lengsta sundlaug landsins. Búningsklefar voru fyrir 30 – 40 manns og áföst íbúð fyrir litla fjölskyldu.

Lárus J. Rist settist þar að ásamt Ingibjörgu dóttur sinni og Ævari syni hennar. Í þessum húsakynnum var stofa með stórum gluggum móti suðri og þaðan var ágætt útsýni yfir sundlaugina. Lárus hafði þar nokkra blómarækt og um tíma ræktaði hann hornsíli í glerkrukkum á milli blómanna.

Strax og vatn var komið í laugina hófst sundkennslan og var Lárus aðalsundkennarinn næstu árin. Um 500 börn og unglingar voru árlega við nám og æfingar í sundlauginni. Langflest voru þau úr Hveragerði og nærliggjandi sveitum en fyrstu árin komu einnig börn til sundnáms frá Suðurnesjum, víðsvegar af Suðurlandi og austan úr Skaftafellssýslu. Nokkur þessara ungmenna unnu í frístundum sínum að uppbyggingu mannvirkjanna án endurgjalds. Hermenn sem voru í búðum í Kaldaðarnesi, Hveragerði og nágrenni sóttu sundlaugina allmikið og höfðu sérstakan búningsklefa til sinna afnota.

Sundlaugin fylgdi Hveragerðishreppi

Fyrstu árin var sundlaugin rekin sem sjálfseignarstofnun á vegum Ungmennafélagsins en styrkt af ríki og sveitarfélögum. Hveragerði var þá hluti af Ölfushreppi, enda mannfjöldi neðan við þau mörk sem lög kváðu um í sveitarfélögum. Í stríðslok varð skyndileg breyting á og mörgum fannst Hveragerði vænlegt til aðseturs.

Aðsókn að sundlauginni jókst svo að það varð Ungmennafélaginu ofviða að sjá um rekstur hennar og féll það þá í hlut hreppanna í Ölfusi og Hveragerði.

Árið 1946 varð þorpið, Hveragerði, sérstakt sveitarfélag og var sundlaugin látin fylgja Hveragerðishreppi.

Hjörtur Jóhannsson tekur við forstöðu Sundlaugarinnar Laugaskarði árið 1946

Árið 1946 lét Lárus af störfum fyrir aldurs sakir og ungur íþróttakennari, Hjörtur Jóhannsson frá Núpum, var settur kennari við skólana í Hveragerði og Garðyrkjuskólann á Reykjum. Hann var þá nýútskrifaður frá Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni. Hjörtur settist að í Laugaskarði og tók við forstöðu staðarins og sundkennslu. Hann tók virkan þátt í félagsmálum og var formaður Umf. Ölfusinga um árabil. Ásamt ungmennafélögunum setti hann sér það markmið að halda áfram uppbyggingu og fegrun staðarins.

Hjörtur kennari bjó með Margréti Þorsteinsdóttur, konu sinni, í sundlaugarhúsinu frá 1949 – 1955 og dóttir þeirra Ester fæddist þar 1952. Það voru bæði kostir og gallar að búa svona nærri sundlauginni. Þægilegt var að fylgjast með sundlífinu úr stofuglugganum en oft gat verið ónæði vegna fólks sem kom á lokunartíma og fannst þá sjálfsagt að nota laugina. Laugarsvæðið var ógirt á þessum tíma og sóttu áfengisdrukknir menn nokkuð í sund að næturþeli og stöku sinnum þurfti að bjarga þeim frá drukknun. Seinna fluttu þau í eigið íbúðarhús sem stendur fyrir ofan sundlaugarhúsið.

Alla tíð voru þau hjónin vakin og sofin yfir hag laugarinnar. Fyrirhyggja og framsýni einkenndi störf þeirra og mikill metnaður fyrir fögru umhverfi og nýbyggingum í Laugaskarði. Hjörtur gegndi starfi forstöðumanns frá 1946 til dauðadags 1985. Þá veitti sonur hans, Þorsteinn, sundlauginni forstöðu í tvö ár. Margrét, kona Hjartar, starfaði við sundlaugina til ársins 2001.

Það er gaman í sundiFastagestir fagna ÞorraHugarleikfimi við skákborðiðDagskrá 80 ára afmælis laugarinnar